Innlent

Hreinsað til í Laugardalnum

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Hreinsunarstarf í Laugardal hófst fljótlega eftir að tónlistarhátíðinni Secret Solstice lauk og sækist vel. Hátíðin þótti takast vel en tíu þúsund gestir sóttu hana um helgina.

Víða um dalinn voru starfsmenn borgarinnar að störfum í dag og þeir sem vilja njóta blíðunnar í Laugardalnum næstu daga þurfa því engu að kvíða.

Hallgrímur Helgason, starfsmaður borgarinnar, sagði umgengnina í dalnum nokkuð dæmigerða. „Íslendingar eru alltaf samir við sig, þegar þeir sletta úr klaufunum þá er frágangurinn svona. Drasl úti um allt.“

Guðmundur Vignir Óskarsson, sem fer fyrir hreinsunarstarfinu hjá Reykjavíkurborg, minnir á að svona stórri hátíð fylgi alltaf tiltekt.

„Almennt séð held ég að þetta hafi gengið mjög vel. Þetta er náttúrulega mjög stór viðburður. Reykjavíkurborg leggur mikla áherslu á að svona viðburðir fari vel fram eins og aðrir viðburðir hjá borginni, þetta er lifandi borg.

En auðvitað fylgja svona miklu umfangi og því þegar fólk kemur saman einhver eftirköst. Það er verið að tína upp og fara í eftirhreinsun núna.“

Guðmundur segir skipuleggjendur hátíðarinnar eiga lof skilið. „Það verður að segja að almennt séð eru menn að ljúka lofsorði á skipulagningu hátíðarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×