Innlent

Minkur grípur æðarunga á Seltjarnarnesi

Jakob Bjarnar skrifar
Minkurinn er haldinn drápshvöt umfram það að vilja veiða sér til viðurværis og hann á til að brytja niður andarunga, þegar sá gállinn er á honum.
Minkurinn er haldinn drápshvöt umfram það að vilja veiða sér til viðurværis og hann á til að brytja niður andarunga, þegar sá gállinn er á honum.
Íbúar Seltjarnarness eru uggandi vegna minks sem sést hefur bæði á golfvellinum og svo sást einn grípa sér æðarunga að morgni sunnudagsmorguns. Við Melshúsabryggju eystri, nánar tiltekið. Hann hvarf svo inn í grjótgarðinn, sjóvarnargarðinn sem er við ströndina, en það virðist algjört kjörlendi minksins.

Að sögn Gísla Hermannssonar, sem er sviðsstjóri umhverfissviðs Seltjarnarnesbæjar er talsvert meira um tilkynningar um mink nú en í fyrra. Þær eru reyndar ekki svo margar að hægt sé að tala um plágu, einar fimm en það er margföldun á við í fyrra. Bærinn er í samstarfi við meindýraeyði sem hefur komið upp gildrum þar sem hans er að vænta. En grjótgarðurinn er hins vegar erfiður, þar er mikið um glufur og þó farið sé með hund á minkinn þá á hann litla möguleika á að ná honum.

Vísir ræddi við mann sem fyrir þremur árum var að njóta sólseturs á Seltjarnarnesi, logn og friðsælt var en án nokkurrar skýringar kom styggð að andamömmu sem var á sundi þar með unga sína. Hún sló niður vængnum, eins og fuglar gera vilji þeir reyna að draga að sér athyglina, en allt kom fyrir ekki. Sem slanga birtist minkur í fjöruborðinu, milli andarmömmunnar og ungana, sem voru um tíu, og svo tók hann til við að brytja þá niður alla og hafði með sér tvo til að bíta í. Hinir lágu dauðir eftir. „Ég gleymi þessu aldrei, ég varð svo reiður,“ segir maðurinn, sem gat ekkert í málunum gert.

Gísli segir að minkurinn virðist haldinn einhverri drápshvöt sem er umfram það að vilja veiða sér til viðurværis. „Við viljum helst ekki hafa mikið af þessum kvikindum hér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×