Innlent

Ómenntaðir með 88 prósent af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Vísir/GVA
Munur á ráðstöfunartekjum þeirra sem lokið hafa háskólaprófi og þeirra sem einungis hafa lokið grunnmenntun hefur minnkað á síðustu árum. Munurinn hélst stöðugur til 2010 en hefur síðan þá farið minnkandi.



Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar eru þeir sem einungis hafa grunnmenntun með 87,7 prósent af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra, sem er átta prósentustigum meira en árið 2004, þegar lífskjararannsókn Hagstofunnar var fyrst framkvæmd. Á sama tímabili fóru tekjur fólks með framhalds- eða starfsmenntun úr 84,5 prósent af tekjum háskólamenntaðra í 91,6 prósent.



Bilið minnkað frá 2010

Hagstofan segir að munur á ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra og annarra hópa hafi verið nokkuð stöðugur til ársins 2010 en að hann hafi síðan þá farið minnkandi.  Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, segir þetta skýrast af mismunandi þáttum.



Hér sést hlutfall ráðstöfunartekna fólks með grunnmentun og framhaldsmenntun af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra.Hagstofan
„Ef að við lítum yfir þróunina yfir lengra tímabil þá hafa tekjur lægsta hópsins, með minnstu grunnmenntun, verið að aukast frá því sem þau fóru næst lægst eftir hrun og  sama hefur verið að gerast fyrir þá sem eru með starfs- og framhaldsmenntun en miklu síður fyrir þá sem eru með háskólamenntun,“ segir hann.

Meðvituð stefna stjórnvalda eftir hrun

Þórólfur segir stefnu stjórnvalda í kjölfar hrunsins hafa haft áhrif á þessa þróun. „Við úrvinnslu úr hrunmálum þá tók til dæmis ríkisvaldið meðvitað þá ákvörðun að verja störf og mæta þá tekjusamdrætti með því að lækka launin að raungildi og þessi háskólamenntaði hópur ríkisstarfsmanna hefur greinilega ekki náð vopnum sínum aftur,“ segir hann.



Þórólfur bendir einnig á að í kjölfar hrunsins hafi samsetning starfa breyst; vel launuð störf háskólamenntaðs fólks hafi horfið.



„Þá gerist það eðlilega í hruninu líka að mikið af hálaunastörfum í bankageiranum og í fjármálageiranum almennt hurfu og hafa ekki komið til baka. Þetta er sambland af þessu tvennu og síðan þessi áhersla sem hefur verið lögð á láglaunahópana í kjölfarið á hruninu,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×