Innlent

Þingflokkur Pírata sakar Morgunblaðið um að skrumskæla sannleikann

Birgir Olgeirsson skrifar
Þingflokkur Pírata
Þingflokkur Pírata vísir/vilhelm
Vegna áframhaldandi fréttaflutnings Morgunblaðsins, af mætingu þingmanna Pírata á nefndafundi, vill þingflokkur Pírata í nafni gegnsæis birta bréfið sem þingflokkurinn sendi ritstjórn Morgunblaðisins 20. maí síðastliðinn með ósk um andsvör á forsíðu Morgunblaðsins.

Segir flokkurinn í orðsendingu til fjölmiðla að halda verði því til haga að þingmenn flokksins aðhyllist ekki leyndarhyggju um störf sín á þingi.

„Helgi Hrafn hefur til að mynda ítrekað hvatt til þess að fundir fastanefnda verði haldnir í heyranda hljóði og munu þingmenn flokksins skýra og lýsa hugmyndum sínum enn frekar um opnari og gegnsærri þingstörf á komandi vikum,“ segir í tilkynningunni frá Pírötum.

Fyrirsögnin á forsíðu Morgunblaðsins 20. maí síðastliðinn var „Píratar mæta verst“ en þingflokkurinn sagði hana efnislega ranga og óskaði eftir því að koma að andsvörum á forsíðu Morgunblaðsins sem má lesa hér fyrir neðan:

Á grundvelli 36. gr. fjölmiðlalaga óskar þingflokkur Pírata eftir að koma að andsvörum á forsíðu Morgunblaðsins vegna rangrar fréttar og sér í lagi efnislega rangrar fyrirsagnar á forsíðu blaðsins í dag.

Þar sem um fyrirsögn á forsíðu er að ræða er enn brýnna fyrir þingflokkinn að staðhæfing fyrirsagnarinnar verði leiðrétt með jafn áberandi hætti, það er, á forsíðu blaðsins og með sömu dreifingu og blað gærdagsins fékk.

Fyrirsögnin „Píratar mæta verst“ á forsíðunni er efnislega röng enda mæta þingmenn Pírata ekki verst á fundi fastanefnda. Meðaltalsfundasókn þingmanna flokksins er 46.6 fundir og eru þingmenn flokksins ekki með lægsta meðaltal fundasóknar þegar lagðar eru saman þær tölur sem blaðið birtir á síðu 20. Þá hafa í það minnsta tólf þingmenn annarra flokka sótt færri nefndafundi en sá þingmaður Pírata sem er með lökustu mætingu.

Í fréttinni segir einnig að Píratar skipi neðstu sætin í mætingu hjá sex af átta fastanefndum þingsins. Þetta er mikil skrumskæling á sannleikanum. Í fyrsta lagi eiga Píratar aðeins fast sæti í þremur af átta fastanefndum þingsins og rétt hefði verið að láta það fylgja fréttinni. Hið rétta er því að Píratar eru með slökustu mætingu í einni af fastanefndum sem þeir eiga sæti í; umhverfis- og samgöngunefnd. Þrátt fyrir að Jón Þór hafi einungis mætt á tvo af þrjátíu fundum nefndarinnar hefur hann mætt á 23 fundi í öðrum nefndum sem haldnir eru á sama tíma og fundir umhverfis og samgöngunefndar. Það gefur augaleið að Jón Þór getur ekki verið á tveimur stöðum í senn.

Þrátt fyrir að mbl.is hafi brugðist ágætlega við tilkynningu þingflokksins í kjölfar fréttarinnar í dag, verður ekki litið framhjá þeim röngu staðhæfingum sem fram koma á forsíðu blaðsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×