Innlent

Gatnaviðgerðir við Laugaveg í biðstöðu svo mánuðum skiptir

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Myndin til vinstri er tekin 15. apríl en sú til hægri er tekin 15. júní.
Myndin til vinstri er tekin 15. apríl en sú til hægri er tekin 15. júní. Vísir/Magnús Ragnar
Íbúi í miðbæ Reykjavíkur furðar sig á því að ekkert hafi gerst í gatnamálum á Laugavegi svo mánuðum skipti. Íbúinn, sem heitir Magnús Ragnar Einarsson, setti myndirnar hér að ofan inn á Facebook síðu sína í gær.

Sú fyrri er tekin 15. apríl og hin seinni 15. júní en á myndinni sést gangstétt fyrir framan Laugaveg 70. Eftir að hann tók fyrir myndina segir hann borgina hafa brugðist við og sett upp grindverk en það hafi ekki náð lengra. Nú liggja grindverkin eins og hráviði og eru byrjuð að ryðga.

„Þetta er ekkert einsdæmi hér í miðbænum, víða eru dæmi um niðurníðslu og vanhirðu. Borgin trassar að sinna eðlilegu viðhaldi á gangstéttum og leyfir vinum sínum verktökunum að komast upp með ýmsan slóðaskap,“ segir Magnús. Hann lifir bíllausum lífstíl og á því oft leið hjá. Að hans sögn hefur þetta verið staðan í mun lengri tíma en þessa tvo mánuði sem tímabil myndanna nær yfir. „Þetta hefur verið svona í að minnsta kosti hálft ár.“

Í svari Reykjavíkurborgar til fréttastofu varðandi þetta kemur fram að framkvæmdirnar sem um ræðir tengist byggingu hótels. Þar segir að samband hafi verið haft við verktaka til þess að reisa girðinguna við og laga hana. „En fljótlega hefjast á þessu svæði, þannig að þetta mun breytast. Búið er að fjarlægja ljósastaura, næst verða trén fjarlægð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×