Innlent

„Það hefði verið gaman að fá einhverja viðurkenningu“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Vilhelm Þór Neto hefur tekið þátt í uppfærslum Stúdentaleikhússins að undanförnu og sinnti formennsku í leikfélaginu á nýafstöðnu leikári.
Vilhelm Þór Neto hefur tekið þátt í uppfærslum Stúdentaleikhússins að undanförnu og sinnti formennsku í leikfélaginu á nýafstöðnu leikári. Vísir/Aðsend
Stjórn Stúdentaleikhússins er ekki boðið á Grímuna í ár líkt og hefur verið raunin á síðustu árum. Vilhelm Þór Neto, formaður Stúdentaleikhússins á nýafstöðnu leikári, segist hafa orðið leiður þegar hann uppgötvaði þetta.

„Ég hafði verið spenntur fyrir þessu allt árið. Við höfum unnið svo mikla vinnu og þetta er auðvitað vinna sem maður vinnur alveg frítt. Það hefði verið gaman að fá einhverja viðurkenningu.“

Einstakt framlag til íslenskrar leiklistar

Vilhelm bendir á að margir af farsælustu leikurum þjóðarinnar hafa fyrst stigið á fjalirnar í Stúdentaleikhúsinu og að framlag leikhússins, sem unnið er að mestu leyti í sjálfboðaliðavinnu, sé mikið framlag til sviðslistar á Íslandi.

„Þetta er mikið framlag, sérstaklega ef því að þetta er allt öðruvísi leikhús. Það er miklu meira leyfilegt,“ útskýrir hann en Stúdentaleikhúsið hefur undanfarin ár vakið athygli fyrir að vera tilbúið til að taka ýmsar áhættur.

„Við settum upp tvær sýningar í ár, eina í tankinum í Perlunni þar sem allt rýmið var leikhús og síðan breyttum við bílaverkstæði í Hafnarfirði í leikhús.“

Áhugaleikfélög ekki lengur aðilar

Vilborg Valgarðsdóttir, formaður Bandalags íslenskra leikfélaga, telur málið eiga sér eðlilegar skýringar.

„Leiklistarsamband Íslands er ekki lengur til, í staðinn var stofnað Sviðslistasamband Íslands. Þannig held ég að standi á þessu. Það er enginn verðlaunaflokkur sem er með áhugafélögin hvort eð er.“

Leiklistarsamband Íslands bar ábyrgð á Grímunni en þegar því var breytt í Sviðslistasamband Íslands áttu færri félög aðild að sambandinu. Þar á meðal Bandalag íslenskra leikfélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×