Innlent

Hefur ekki stefnt að forsetaframboði

Birgir Olgeirsson skrifar
„Nei, ég hef ekki stefnt á það,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í Harmageddon þar sem hún var spurð hvort hún stefndi að því að verða annar kvenforseti íslenska lýðveldisins. Einhverjir hafa nefnt Katrínu sem líklegan frambjóðanda fyrir forsetakosningarnar árið 2016 en hún sagðist vera nýtekin við sem formaður Vinstri grænna.

„Það er mitt verkefni. Ég brenn fyrir þeirri pólitík,“ sagði Katrín en sagðist jafnframt vonsvikin með það fylgi sem Vinstri grænir mældust með í könnun Fréttablaðsins þar sem flokkurinn mældist með 7 prósenta fylgi.

Þegar hún var spurð hvort hún myndi velja að verða forseti Íslands eða formaður sameinaðs flokks vinstri manna sagðist hún frekar vilja leiða sameinaðan vinstri flokk, ef hún yrði að velja.

Talið barst að fylgi Vinstri grænna og hvaða ástæður gætu verið fyrir því að flokkurinn mælist svo neðarlega. Frosti Logason, annar af þáttastjórnendum Harmageddon, nefndi í því samhengi forsjárhyggju sem hafi fylgt flokknum í gegnum tíðina.

Katrín svaraði á móti að margir gætu talið kynjakvóta vera forsjárhyggju. Hún sagði að ef stjórnmálaflokkur vill hafa mikil áhrif á samfélagið þá þurfi hann að grípa til „drastískra“ aðgerða.

„Alveg eins og kvennalistinn var drastísk aðgerð, alveg eins og það var mjög róttæk aðgerð að konur fengu kosningarétt á sínum tíma, þá er það róttæk aðgerð að segja þið verðið að hafa konur í stjórnum fyrirtækja og það þýðir ekki að segja að þær séu ekki til og þær séu ekki hæfar. Þetta finnst mörgum vera forsjárhyggja. Mér finnst þetta sýna að maður sé reiðubúinn til að beita aðgerðum til að tryggja jafnan rétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×