Innlent

Leitað að Reykvíkingi ársins 2015

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Í fyrra fengu bræðurnir Kristján og Gunnar Jónassynir verðlaunin.
Í fyrra fengu bræðurnir Kristján og Gunnar Jónassynir verðlaunin. vísir/gva
Borgarstjóri óskar eftir ábendingum frá borgarbúum um Reykvíking ársins. Til greina koma þeir einstaklingar, sem hafa með háttsemi sinni eða atferli, verið til fyrirmyndar á einhvern hátt.

Verðlaunin voru afhent í fyrsta skipti árið 2011 en þá féllu þau í skaut Gunnlaugs Sigurðssonar. Theodóra Guðrún Rafnsdóttir hlaut þáu ári síðar og Ólafur Ólafsson árið 2013. Í fyrra fengu bræðurnir Kristján og Gunnar Jónassynir verðlaunin.

Í tilkynningunni segir að Reykvíkingur ársins gæti t.d. verið einhver sem heldur borginni hreinni með því að tína upp rusl á víðavangi, hefur haft jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt eða samfélag með umhyggju og gert Reykjavíkurborg eða Reykvíkingum gott á undanförnum árum.

„Það eru fjölmargir einstaklingar sem vinna óeigingjarnt starf í þágu samborgara sinna á degi hverjum. Allir þekkja einhvern eldhuga í sínu hverfi sem með náungakærleik eða öðru framlagi til samfélagsins hefur gert Reykjavík betri. Ég hvet alla til að senda inn tilnefningu en þau sem hafa hlotið þennan titil síðastliðin fjögur ár eru sannkallað fyrirmyndarfólk, “ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Reykvíkingur ársins hlýtur vegleg verðlaun frá Reykjavíkurborg, m.a. boð frá borgarstjóra um að opna Elliðaárnar. Auk þess fær hann árskort í sundlaugar ÍTR, árskort í Fjölskyldu og húsdýragarðinn, Menningarkortið til eins árs og leikhúsmiða í Borgarleikhúsið.

Ábendingar um einstaklinga eru vel þegnar og ber að senda þær inn ásamt rökstuðningi á netfangið hugmynd@reykjavik.is eða bréflega til skrifstofu borgarstjóra merkt Reykvíkingur ársins fyrir 14. júní 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×