Innlent

Litlir skammtar geta reynst lífshættulegir

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Sautján ára stúlka lést eftir að hún tók inn eina og hálfa e-töflu á aðfararnótt sunnudagsins. Læknir segir fólk aldrei óhult þótt það taki inn litla skammta af efninu, en frá aldamótum er hægt að rekja dauðsföll sex íslenskra ungmenna til neyslu e-taflna og skyldra efna,sem vinsæl eru í skemmtanalífinu.

Ingibjörg Melkorka Ásgeirsdóttir var nýlega orðin sautján ára gömul þegar hún lést í kjölfar þess að hafa neytt e-töflu aðfaranótt síðastliðins sunnudags. Ingibjörg lætur eftir sig foreldra, fjórar systur og einn bróður. Bænastund verður í Akraneskirkju á morgun, föstudaginn 5. júní klukkan 17:30.

Ingibjörg Melkorka tók inn eina og hálfa E-töflu. Eftir það sofnaði hún og vaknaði ekki aftur. Hún var flutt á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut þar sem hún var úrskurðuð látin aðfararnótt þriðjudagsins 2. júní.

Aðstandendur Ingibjargar Melkorku vilja koma því á framfæri að þetta var í fyrsta og eina skipti sem vitað er að hún hafi neytt þessara eiturefna sem E-pillur eru. Eitt skipti getur því verið nóg til að hafa þessar hörmulegu afleiðingar. „Von okkar er að þessum skilaboðum verði komið út í samfélagið sem víðast, öðrum til aðvörunar um þá dauðans alvöru sem neysla vímuefna getur haft,“ segir í yfirlýsingu frá aðstandendum.

Ungmenni telja efnið jafnan skaðlaust, Svanur Sigurbjörnsson sérfræðingur í lyflækningum segir frá  lífshættuleg einkennum ofskömmtunar en mörg þeirra geta farið framhjá jafnvel fróðasta fólki.

„Lífshættuleg einkenni þau geta verið  þónokkur, það getur komið fram í krömpum, smá saman getur viðkomandi ofhitað og misst mikinn vökva gegnum svita og síðan getur hreinlega orðið ýmis einkenni út frá taugakerfi, ofskynjanir, rugl, fólk getur skaðað sig þannig út frá skertri dómgreind, síðan alls konar einkenni frá æðakerfi, hjartaáföll, heilablóðföll og lokun á líffærum. Æðarnar lokast og nýrun og fleiri lífsnauðsynleg líffæri hætta að starfa.“

Svanur varar fólk við því að litlir skammtar geti jafnvel reynst lífshættulegir.

„Lítil manneskja og létt með lítinn vöðvamassa, hún getur verið að taka einhvern milligrammafjölda af efni sem fyrir stærri manneskju væri innan hættumarka. Svo spilar inn í líka talsvert vökvaástand, líkamsáreynsla, svo er mismunandi milli einstaklinga hvernig lifrin vinnur úr lyfjum. Það getur því líka verið breytilegt á milli manneskja af sömu stærð.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×