Innlent

Komst ekki í útskrift dóttur sinnar út af slæmu hjólastólaaðgengi

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Bíó Paradís á Hverfisgötu hefur verið gagnrýnt fyrir slæmt aðgengi fyrir fatlaða en aðgengi fyrir fólk í hjólastól er ábótavant í húsinu. Hreyfihamlaður maður í hjólastól gat ekki verið viðstaddur útskrift dóttur sinnar sem fram fór í húsinu þar sem hann komst ekki inn í salinn. Nú stendur yfir söfnun fyrir hjólastólalyftum í húsið.

Húsið sem hýsir Bíó Paradís er byggt árið 1977 og ekki hannað með aðgengi hreyfihamlaðra í huga. Aðstandendur bíósins hafa verið gagnrýndir fyrir það en þeir hafa ekki haft fjármagn til þess að laga aðgengið.

Síðdegis í dag var haldið boð þar sem fólk í hjólastólum mætti til að sýna söfnuninni samstöðu. Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins, er einn þeirra en hann komst ekki í útskrift dóttur sinnar úr Kvikmyndaskólanum sem haldin var í húsinu á dögunum.

„Ég gerði líka allt vitlaust fram að útskrift en þá dró ég mig í hlé,” segir Guðjón, sem að vonum var ósáttur við það að komast ekki að. Hann vonast til þess að það náist að safna þeirri sex og hálfri milljón sem þarf til þess að geta lokið þessum fyrsta áfanga í því að gera bíóið aðgengilegt fyrir fólk í hjólastólum.

„Við höfum vitað það lengi að við þyrftum að gera eitthvað róttækt í þessu en vissum reyndar ekki að breytingarnar myndu kosta svona mikið,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar. „Við vorum fyrstu árin að koma okkur upp almennilegum sýningarbúnaði og tryggja grundvöll bíósins. Núna þegar við erum búin að því, þá gerum við okkur auðvitað grein fyrir því að auðvitað þarf þetta bíó að vera fyrir alla.”

Þannig að nú hefur verið ráðist í söfnun á hópfjármögnunararsíðunni Karolina Fund þar sem hægt er að kaupa árskort sem fer upp í söfnunina. 

„Við höfum sótt um í nokkuð marga sjóði og þeir eru ekki margir eftir, það er til dæmis búið að leggja niður framkvæmdasjóð fatlaðra,“ segir Hrönn. „Eina lausnin í stöðunni er að fara í svona söfnun og allt andvirði kortsins fer í þessa söfnun. Ef okkur tekst að gera þetta þá er það auðvitað stórkostlegt.“

Söfnunin sem ber nafnið Bíó Paradís fyrir alla - líka fólk í hjólastólum endar eftir sex daga en nú hefur um 20% markmiðsins verið náð. Hægt er að kaupa allt frá tveimur bíómiðum til fjölskyldukorts fyrir alla fjölskylduna í bíó og renndur allt andvirði beint í söfnun fyrir hjólastólalyftum til þess að bæta aðgengi í húsinu fyrir fólk í hjólastólum. Hægt er að taka þátt í söfnuninni hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×