Innlent

Brutu gegn fanga með því að senda hann á Litla Hraun vegna Facebook-notkunar

Birgir Olgeirsson skrifar
Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. Vísir/GVA
Innanríkisráðuneytið hefur fellt ákvörðun fangelsismálastofnunar úr gildi sem ákvað um miðjan maí síðastliðinn að senda fanga um tvítugt af Kvíabryggju yfir á Litla Hraun fyrir tölvubrot. Fangelsismálastofnun tók þessa ákvörðun eftir að hafa borist afrit af Facebook-samskiptum sem fanginn hafði átti í.

Fanginn afplánar þriggja ára dóm en lögmaður hans, Guðmundur St. Ragnarsson, kærði þessa ákvörðun fangelsismálastofnunar til innanríkisráðuneytisins.

Hann segir innanríkisráðuneytið hafa metið það svo að þessi ákvörðun að flytja fangann af Kvíabryggju á Litla Hraun hefði brotið gegn meðalhófi.  Guðmundur segir í samtali við Vísi að unnt hefði verið að láta fangann sæta viðurlögum á Kvíabryggju fyrir þetta tölvubrot í stað þess að grípa til þess að flytja hann í lokað fangelsi.

„Þeir sem eru í lokuðum fangelsum og verða uppvísir af tölvubroti, þeir eru þá látnir sæta tölvubanni í einn mánuð sem er mun vægara heldur en hitt og það hefði mögulega verið nær að grípa til þannig aðgerða gagnvart þessum pilti.“

Allt fullt á Kvíabryggju

Þrátt fyrir að innanríkisráðuneytið hafi úrskurðað að þessi ákvörðun fangelsismálastofnunar hefði farið gegn meðalhófi stjórnsýslulaga og hún felld úr gildi hefur fanginn enn ekki verið fluttur af Litla Hrauni á Kvíabryggju. Innanríkisráðuneytið birti úrskurð sinn á föstudaginn en Guðmundur segist hafa fengið þau svör að ekki væri pláss á Kvíabryggju fyrir fangann og því ekki hægt að flytja hann af Litla Hrauni. Guðmundur hefur mótmælt þessari afstöðu.

„Ráðuneytið er búið að taka þessa ákvörðun og úrskurða um það að þetta sé ólögmætt, þá er frekar einkennilegt að það sé ekki hægt að koma hinu ólögmæta ástandi í löglegt út af plássleysi. Það er einhver sem tekur hans pláss væntanlega.“

„Um leið og losnar þá verður hann fluttur,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við Vísi um málið. Hann gat ekki sagt til hvenær fanginn verður fluttur. Fangelsismálastofnun barst þessi úrskurður frá ráðuneytinu eftir lokun á föstudag og sé verið að vinna í því að finna lausn. „Við erum bara að vinna í því núna, hvort það þurfi að flytja einhvern annan. Fanginn verður fluttur um leið og pláss er laust. Við fyllum öll pláss býsna hratt.“

„Svona virkar þetta stjórnsýslukerfi sem betur fer“

Hann segir þennan úrskurð til marks um að kerfið virkar.

„Okkar ákvarðanir í fangelsismálastofnun eru kæranlegar upp í innanríkisráðuneytið og við verðum að laga okkur eftir því og fara að þeim fyrirmælum sem við fáum úr innanríkisráðuneytinu og gerum það auðvitað og munum taka mið að því framvegis. Svo er aukaatriði hvort ég sé sammála þessum niðurstöðum. Svona virkar þetta stjórnsýslukerfi sem betur fer.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×