Innlent

Hraðhleðslustöð opnar á Akranesi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá opnun stöðvarinnar
Frá opnun stöðvarinnar
Tíunda hraðhleðslustöð Orku náttúrunnar, ON, hefur verið sett upp en hún er staðsett við Krónuna á Dalbraut 1 á Akranesi. Hjónin Jóhanna Líndal Jónsdóttir og Ari Grétar Björnsson voru fyrstu viðskiptavinir stöðvarinnar.

„Það er snilld að eiga rafmagnsbíl,“ segir Jóhanna Líndal Jónsdóttir en hjónin fengu sér rafbíl í vor. Þau segja hann henta vel í stuttar ferðir innanbæjar og þegar þau skreppa til Reykjavíkur og hafa í kjölfarið lækkað eldneytiskostnað.

„Hann er umfram allt umhverfisvænn, hljóðlátur og kemur það sér vel þegar verið er á ferðinni í íbúðarhverfum að næturlagi eins og ég geri í minni vinnu,“ segir Ari.

Þetta er tíunda stöðin sem ON setur upp á Suður- og Vesturlandi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, við IKEA í Garðabæ, í Borgarnesi, á Selfossi og við Fríkirkjuveg.

Rafbílum er sífellt að fjölga hér á landi. Um áramótin var fjöldi þeirra kominn yfir 300 og samkvæmt upplýsingum frá umboðum hafa tugir bæst við á fyrstu mánuðum ársins 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×