Innlent

Beint úr moldarkofanum í 100% bílalán

Heimir Már Pétursson skrifar
Farið er að hilla undir samkomulag um þinglok. Breytingartillaga við virkjanamálin ræður miklu um lengd sumarþings.
Farið er að hilla undir samkomulag um þinglok. Breytingartillaga við virkjanamálin ræður miklu um lengd sumarþings. vísir/vilhelm
Þingflokksformaður Pírata segir Íslendinga nýskriðna út úr fjárhagslegum moldarkofum og því sé ástæða til að óttast framtíðina þegar gjaldeyrishöftum verði aflétt. Farið er að hilla undir samkomulag um þinglok.

Almenn samstaða virðist ríkja um haftafrumvörp fjármálaráðherra en það verða stærstu málin sem afgreidd verða á þinginu fyrir sumarleyfi. Hins vegar er enn algerlega ósamið um önnur mál fyrir þinglok.

Þetta var augljóst í störfum þingsins í dag þar sem stjórnarandstaðan ræddi frumvarp fjármálaráðherra um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016 til 2019 mjög ítarlega annan eða þriðja daginn í röð án þess að margir sýndu þeirri umræðu mikinn áhuga.

Haftafrumvörpin koma til umræðu á á morgun en þingflokksformaður Pírata lýsti hins vegar áhyggjum sínum af því sem tæki við þegar búið væri að samþykkja haftafrumvörpin sem hann sagðist annars hlakka til að ræða.

 „Vegna þess að þegar við erum búin að losa um fjármagnshöftin, sem allir eru sammála um að þurfi að gera, þá óttast ég að við horfum aftur fram á tíma ákveðinnar óráðdeildar. Ég vil meina að Íslendingar séu eiginlega nýskriðnir úr fjárhagslegum torfkofum, að við sem þjóð þekkjum fjármál mjög illa,“ sagði Helgi Hrafn.

Það ætti jafnvel við þingmenn, almening og bankamenn. Nú væru flestar bílasölur t.d. farnar að bjóða upp á 100 prósent bílalán.

„Sem hljómar einhvern veginn æðislega vel. Að fá lánaðan heilan bíl. Það er ekki endilega góð hugmynd. Ég óttast það að Íslendingar fari aftur að líta á lán sem ókeypis peninga og atkvæðaseðla sem lottómiða. Ég óttast það mjög og vara við því,“ sagði Helgi Hrafn.

Breytingatillögurnar við þingsályktun Sigurðar Inga Jóhannssonar fyrrverandi umhverfisráðherra um virkjanamál munu ráða miklu um þinglokin. Ekki liggur fyrir hvort stjórnarflokkarnir ætli sér að halda því máli til streitu óbreyttu.

Síðdegis átti að boða til fundar forystumanna flokkanna til að reyna að ná samkomulagi um hvaða mál verða afgreidd á þessu þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×