Innlent

Hætt komin eftir að sýking barst í brjóstapúða

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Nítján ára kona, sem var hætt komin og lá á gjörgæslu í viku eftir bakteríusýking barst í silíkonpúða sem hún var með, segist ráðleggja konum að kynna sér áhættuna sem getur fylgt því að fara í brjóstastækkun. Hún er starfsfólki Landspítalans afar þakklát.

Á þriðjudag í síðustu viku kom móðir Ernu Rutar Sigurðardóttur að henni í svefnherbergi sínu með litlu lífsmarki. Hún hafði fengið streptókokkasýkingu sem ágerðist hratt og barst í silíkonpúða sem hún fékk sér fyrir nokkrum mánuðum. 

„Sjúkraflutningamennirnir sjá að ég er að fá svokallað sýkingalost og fara með mig á bráðamóttökuna. Í sjúkrabílnum þurftu þeir að bora í hnén á mér til að komast í beinmerg vegna þess að blóðþrýstingurinn var svo lágur að það var ekki hægt að komast í æðar í líkamanum. Siðan var ég lögð inn á gjörgæsluna og þaðan fór ég í aðgerð þar sem þurfti að fjarlægja úr mér silíkon af því að annars hefði ég dáið. Það var komin sýking í báða púðana út frá því að ég var með streptókokkasýkingu í líkamanum,“ segir Erna.

Púðarnir voru fjarlægðir á síðustu stundu.

„Púðarnir voru mjög sýktir og það var komið drep í annað brjóstið. Ef þeir hefðu ekki verið fjarlægðir strax þá hefði ég ekki lifað þetta af. Eða það hefði þurft að fjarlægja allt brjóstið í aðgerðinni,“ segir hún.

Erna tekur skýrt fram að ekkert hafi verið athugavert við silíkonaðgerðina sjálfa. Samkvæmt upplýsingum frá læknum Ernu er ekki hægt að segja til um hvað nákvæmlega olli því að sýkingin varð svona alvarleg, en einstaklingsbundið sé hvernig líkaminn tekur aðskotahlutum.

„Það bregst engin eins við svona. Þetta er aðskotahlutur í líkamanum og þú veist ekkert hvort hann hafnar því eða ekki, þú veist það ekkert fyrirfram. Þannig að þú verður bara að vera tilbúin að taka því,“ segir Erna. Hún segist hafa verið meðvituð um þá áhættu sem hún var að taka þegar hún fór í aðgerðina en að hún hafi ekki búist við því að neitt myndi koma fyrir hana.

Erna var útskrifuð af gjörgæsludeild í dag en mun þó dvelja á spítalanum áfram næstu daga. Hún segist eiga starfsfólki landspítalans líf sitt að launa.

„Það er búið að vera mjög vel hugsað um mig. Ég á þeim líf mitt að þakka, algjörlega.“

Hún segist ráðleggja konum að kynna sér áhættuna sem getur fylgt því að fara í brjóstastækkun.

„Ég ætla ekkert að segja við stelpur að gera þetta ekki, en þessu fylgir áhætta og þetta getur gerst. Fólk á bara að vera meðvitað um það,“ segir Erna Rut. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×