Innlent

Erill hjá lögreglu: Líkamsárásir, ölvunarakstur og árás á lögreglu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Fjöldi mála kom upp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Fjöldi mála kom upp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Kolbeinn
Karlmaður var handtekinn á slysadeild Landspítalans eftir að hann pissaði í biðstofunni. Hann var vistaður í fangageymslu og verður rætt við hann síðar í dag, þegar runnið hefur af honum. Annar var handtekinn í Vesturbæ en hann var   hálfnakinn á stigagangi í íbúðarhúsi . 



Að sögn lögreglu var maðurinn mjög ölvaður og gat ekki gert grein fyrir sér eða ferðum sínum, hann handtekinn og vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður síðar í dag



Um klukkan fjögur í nótt veittist kona að lögreglu þar sem hún var í tökum dyravarða á skemmtistað í miðbænum. Konan var að sögn lögreglu mjög ölvuð og sparkaði aftan í læri lögreglumanns. Hún var handtekin í kjölfarið og færð í lögreglubíl en þar reyndi hún að sparka í andlit á lögreglumanni.



Þá voru unnar skemmdir í Húsdýragarðinum í Laugardal. Nokkrir voru handsamaðir í garðinum í nótt en samkvæmt lögreglu var þeim sleppt eftir upplýsingaöflun. Ekki er ljóst hverjar skemmdirnar eru. 



Átta voru stöðvaðir ýmist grunaðir um lyfja eða ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu. Öllum var sleppt að lokinni blóðtöku hjá lögreglu. 



Tvær líkamsárásir voru tilkynntar í miðborginni. Í öðru atvikinu veittust fjórir karlmenn að einum, sem endaði á slysadeild. Vitað er um tvo gerendur í málinu, sem er til rannsóknar. Í hinu tilvikinu hlaut karlmaður minniháttar áverka eftir líkamsárás en ekki er vitað um gerendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×