Innlent

Kannast ekki við heimilislækninn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir veltir því fyrir sér hvort verið sé að ýta fólki út úr Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Katrín Jakobsdóttir veltir því fyrir sér hvort verið sé að ýta fólki út úr Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. vísir/gva
Fjöldi fólks fær nú bréf frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem því er tjáð að það sé skráð með tvo heimilislækna, annars vegar hjá heilsugæslunni og svo hjá sjálfstætt starfandi heimilislækni.

Á meðal þeirra sem fengið hafa slíkt bréf er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, en hún greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni í gær:

„Í dag fékk ég bréf sem segir mér að ég og börnin séum skráð með tvo heimilislækna, téðan heimilislækni og annan mann sem ég hef aldrei heyrt minnst á (og ekki segjast synirnir þekkja hann)! Síðan kemur á stofnanamáli tilkynning að um „að einfalda eigi skráninguna“ og að ef ég andmæli ekki innan tiltekins tímafrests verði ég færð frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (þar sem eini læknirinn sem ég kannast við að sé minn læknir er staðsettur) yfir til hins aðilans (vafalaust ágætur en aldrei heyrt hann né séð) sem er sjálfstætt starfandi utan heilsugæslustöðva. Best að setjast niður og andmæla [...] – en bréfið hljómar vissulega eins og ýta eigi manni út úr Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.“

Í athugasemdum við færslu Katrínar segja fleiri frá því að þeir hafi fengið svipað bréf, þar á meðal Eiður Svanberg Guðnason, Eiríkur Bergmann og Kristinn Hrafnsson sem segir:

„Ég hélt að þetta væri grín og hunsaði bréfið. Álíka og að hið opinbera tilkynnti manni sjálfkrafa skráningu í Hvítasunnusöfnuðinn nema því sé andmælt innan tímafrests. Hver hefur svona brenglaðan húmor?“

Ekki verið að ýta fólki yfir í einkarekstur

Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þvertekur fyrir í samtali við Vísi að verið sé að bola fólki út úr heilsugæslunni og til lækna sem starfa utan hennar og hafa samning við Sjúkratryggingar Íslands.

„Það sem er í gangi er að í dag er töluvert um tvískráningar og í raun og veru er bara verið að taka til í þessu þannig að sjúklingar séu bara með einn heimilislækni skráðan. Fólk þarf bara að láta vita hjá hvaða lækni það vill vera,“ segir Svanhvít.

Varðandi þann tímafrest sem fólki er gefinn til að láta vita, annars missi það sinn heimilislækni, og færist yfir í hitt kerfið segir Svanhvít:

„Það er ekkert vandamál ef fólk bregst ekki við bréfinu strax. Þó að það bregðist ekki við innan þessara tímamarka þá er því bara velkomið að hringja og þá er það allt leiðrétt. Þetta snýst því ekki um að reyna að ýta neinum yfir í einkarekstur. Við erum líka að reyna að tryggja mönnun og að sem flestir geti haft fastan heimilislækni þannig bara að fólk sé ekki tvískráð.“

Svanhvít segist ekki kunna skýringar á því hvers vegna fólk sé skráð með tvo heimilislækna án þess að vita af því. Sjúkratryggingar verði að svara því en ekki hefur náðst í Steingrím Ara Arason, forstjóra Sjúkratrygginga vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×