Skoðun

Víðsjá

Lárus Sigurður Lárusson skrifar
Í síðustu viku birtist grein eftir þann sem þetta ritar á vefnum visir.is um íslensku óperuna og verkefnaval þar á bæ. Það kom greinarhöfundi heldur en ekki betur á óvart að heyra sama umfjöllunarefni í þættinum Víðsjá nú síðastliðinn sunnudag í endurflutningi. Þóttist greinarhöfundur heyra óm sinna eigin skrifa í þættinu og þótti ánægjulegt. Þá gladdist höfundur ekki síður yfir því að þáttarstjórnandi vísaði til hans sem ungs lögfræðings, maður verður svo ginkeyptur fyrir skjallinu um fertugt. Ástæða þessara skrifa nú er sú að viðmælendur í téðum Viðsjárþætti impruðu á mörgum álitaefnum sem höfundi hafa brunnið á brjósti. Af þeim skulu tvö rædd hér, hið fyrra íslenskar óperur og hið síðara hvað felst í óperuforminu.

Óperur eru nefnilega óperur, jafn kindarlega og það kann að hljóma. Í gegnum tíðina hefur verið almenn tilhneiging til þess að flokka óperur sem tónverk fyrst og framst en minna farið fyrir öðrum hliðum óperuformsins. Ópera er nefnilega bæði leikverk og tónverk og góð ópera sameinar báða miðla í jöfnum hlutföllum. Virkilega góð ópera er allt í senn sviðsverk, tónverk, bókmenntaverk, sjónlist og jafnvel dansverk. Hér trónir á toppnum Íslandsvinurinn Richard Wagner, sem nýtti í óperum sínum m.a. fornan bókmenntaarf íslenskan. Óperur af þessum sökum eru ekki einkamál íslensku óperunnar. Þvert á móti á öflugt og metnaðarfullt óperuhús á Íslandi að vera hagmunamál allra þeirra sem starfa við leikhús og sjónrænar listir og vitaskuld tónlist. Óperan er samruni allra lista. Hér liggur ábyrgðin víðar en bara hjá íslensku óperunni og hefur höfundur t.d. lengi undrast á því að sinfóníuhljómsveit Íslands skuli ekki hafa mótað sér ábyrga stefnu á þessu sviði. Þegar öllu er á botninn hvolft þá leikur sinfóníuhljómsveitin lykilhlutverk í óperuflutningi.

Allt frá fyrstu tíð, alltént frá þeim tíma að óperur fóru að berast hingað til lands í einhverju mæli af alvöru, hafa Íslendingar tekið þessu listformi opnum örmum. Mörgum finnst þetta e.t.v. skrítin fullyrðing og halda hið gagnstæða en þetta er að engu síður satt. Íslensk söngmenntun hefur blómstrað og íslenskir söngvarar gert það gott úti í hinum stóra heimi. Að sama skapi opnuðu íslensk tónskáld faðminn fyrir þessu listformi. Greinarhöfundi hefur t.d. alltaf fundist íslensk söngljóð bera mikinn keim af óperum, oft mun meiri en af klassískum ljóðasöng (lieder). Þá hafa yngri tónskáld íslensk verið ötul við að halda þessu góða og fjölbreytta listformi á lofti. Gróskan á þeim vettvangi hefur verið þvílík að í dag geta Íslendingar státað sig af því að vera komnir á það stig að eiga klassísk verk á þessu sviði. Þar vísar greinarhöfundur til óperunnar Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson sem kölluð hefur verið fyrsta íslenska óperan. Í huga höfundar er þessi ópera orðin sígilt verk sem hefur upp á að bjóða flest af því sem einkennir góða óperu.

Íslenska óperan hefur í gegnum tíðina lagt sitt af mörkum þegar kemur að flutningi nýrra íslenskra ópera þótt með nokkuð bortakenndum hætti hafi verið. Hér þarf að gera betur. Fyrir nokkurum árum stóð Hrólfur Sæmundsson barýtónsöngvari fyrir því að halda sumaróperu í Reykjavík, eins konar óperufestival. Því miður náði þessi tilraun ekki flugi. Með sífellt vaxandi straumi erlendra ferðamanna til landsins er vel þess virði að velta því fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að endurvekja þessa sprotastarfsemi. Hér er óplægður akur fyrir ferðaþjónustuna jafnt sem íslensku óperuna og gæti verið lyftistöng fyrir óperumenningu á Íslandi. Íslenskt óperufestival, sumarópera við sundin blá. Hér mætti áherslan vera á nýjar óperur, tilraunir í leikhúsi og nýjar og spennandi upplifanir fyrir túrista og heimamenn. Nú er höfundur e.t.v. farinn að láta sig dreyma en gleymum því ekki að Harpan laðaði að fjölda erlendra ferðamanna eftir að hún var opnuð og fjöldi erlendra gesta á tónleikum sinfóníuhljómsveitar Íslands margfaldaðist. Það sem eftir situr er að tækifærin liggja víða en þeir einir fiska sem róa.


Tengdar fréttir

Íslenska óperan – verkefnaval og metnaður

Sá sem þetta ritar hefur haft brennandi áhuga á óperum í áratugi og bæði sótt sér menntunar í söng og ferðast víðsvegar um heiminn til þess að sækja óperusýningar.




Skoðun

Sjá meira


×