Innlent

Erum að opna „faðm" hússins

Linda Blöndal skrifar
Aldrei fyrr hefur gersemum Íslendinga frá ólíkum öldum verið safnað saman í eina listsýningu eins og þeirri sem nú er verið að setja upp í Safnahúsinu við Hverfisgötu, áður Þjóðmenningarhúsinu en sýningin á að standa þar næstu árin. 

Fær nafnið Safnahús

Héðan í frá mun Þjóðmenningarhúsið á Hverfisgötu einfaldlega nefnast Safnahúsið og verða opið almenningi. Á viðamikilli sýningu sem verið er að setja upp til næstu sex ára er blandað saman margvíslegum þjóðargersemum, forngripum, náttúrugripum, listaverkum, skjölum og handritum frá safnkostum sex stofnana, Árnastofnunar, Náttúruminjasafnsins, Listasafns Íslands, Landsbókasafnsins, Þjóðskjalasafnsins og Þjóðminjasafnsins sem er nú sameinað húsinu.

Spennandi ferðalag um myndrænan menningararf

„Fyrst og fremst erum við að opna faðm hússins fyrir öllum almenningi, landsmönnum og gestum þeirra,“ sagði Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður í fréttum Stöðvar tvö í kvöld.

„Hér verða til sýnis þjóðminjar, listaverk, náttúrugripir, handrit, skjöl og bækur. Allt verður þetta skoðað út frá sjónarhorni sem verður eins og spennandi ferðalag um okkar myndræna menningararf.“

Margrét segir að nú sé ákveðnum hring lokað varðandi sögu hússins og hlutverk þess.

„Við lítum svo á að nú sé búið að opna húsið gagnvart öllum og að þetta sé safnahús á ný þar sem þær stofnanir sem eiga rætur í húsinu koma saman á ný. Þær eiga allar sögu hér í húsinu og svo þroskaðist þeirra starfsemi annars staðar. En nú koma þær saman með þessari spennandi sýningu.“

Margra alda sýning

Sýningarmunirnir eru tengdir saman út frá tilteknum hugmyndum og settir saman gripir frá 14. öld allt fram til verka dagsins í dag. Sýningin er í þremur stórum sölum og tuttugu hliðarherbergjum og einnig í risi hússins sem byggt var árið 1909. Sum verkanna hafa ekki komið fyrir almennings augu í tugi ára og uppruni sumra alls óþekktur.

Mannlegur þráður í gegnum aldirnar

Markús Þór Andrésson er sýningarstjórinn.

„Ég gæti trúað því að gestur sem kemur hingað í fyrsta sinn muni upplifa margt sem honum finnst hann þekkja og finnast kunnuglegt. Það er þessi sammannlegi þráður sem er í gegnum aldirnar. Hvort sem maður er lærður listamaður eða óþekktur handverksmaður, sama hvaða efni eru notuð, þá getum við í dag tengst þessum hlutum svo auðveldlega. Maður þarf bara að gera sér grein fyrir því hvert listamaðurinn var að horfa,“ sagði Markús þegar Stöð tvö heimsótti húsið í dag. 

Sumt aldrei verið sýnt almenningi áður

„Dýrgripirnir leynast víða. Öll þessi söfn geyma sjónrænan menningararf og listaverk, sum hver kunnugleg en önnur sem hafa aldrei komið fram í dagsljósið,“ segir Markús.

Mikið kapp er lagt á að klára allt fyrir næstu helgi þegar formlega á að opna sýninguna en þá verður búið að standsetja kaffihús í safninu en lestrarsalur safnsins verður einnig öllum opin til notkunar. 

Gamlir dýrgripir vilja vera lifandi í samtímanum

„Það eru til allrar hamingju engar reglur um hvernig búa eigi til svona sýningu eða skrá söguna eða endurskoða söguna,“ segir Markús aðspurður hvort það sé leyfilegt í listaheiminum að setja saman í sölunum svo ólíka gripi.

„Í hjarta mér veit ég að þessir gripir vilja komast í samtal við samtímann. Þeir vilja vera lifandi, þeir vilja ekki bara lifa í bókum fræðimanna sem eru svo lagðar til hliðar og við hættum að hugsa um þá,“ segir Markús ennfremur. Það þurfi ætíð að sjá listaverkin frá nýjum sjónarhornum og setja í samhengi við önnur tímabil.

„Ég ímynda mér að upplifunin verði svolítið þannig að maður bara ráfi um og sé bara í einhverju uppgötvunarferli,“ segir Markús að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×