Innlent

Á vergangi vegna veikinda

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Erika E. Inderyanti hefur verið á götunni í þrjá mánuði eftir hún missti íbúð sem hún leigði hjá Félagsbústöðum. Hún segist ráðalaus og ekki vita hvernig hún eigi að finna heimili fyrir sig og son sinn. Hún segist ekki hafa efni á því að leigja á almennum markaði. 

Erika hefur síðustu fimmtán ár glímt við ýmis veikindi sem hafa orsakað það að hún er 75 prósent öryrki. Á síðasta ári fékk hún berkla í eitla á hálsi og vegna veikindanna lenti hún í vanskilum með leiguna. Hún náði ekki að semja og flutti út úr íbúðinni þegar hún fékk útburðartilkynningu. Það var í janúar og síðan þá hafa hún og nítján ára sonur hennar verið heimilislaus en fengið að gista hjá vinafólki. 

„Eftir veikindin ég á ekki efni á að borga, ég var að biðja um hjálp en mér var bara vísað þangað og hingað. ég hef yfirleitt staðið mig vel í fimmtán ár.“

Erika hefur búið á Íslandi í 22 ár. Fyrstu árin rak hún verslun ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum sem dó fyrir fimmtán árum síðan. Frá því hefur hún staðið ein að uppeldi sona sinna og lagt sig mikið fram til þess að þeir hafi báðir getað menntað sig. Þrátt fyrir veikindin þá hefur hún alltaf unnið mikið þegar heilsan hefur leyft.

„Ég hef verið rosalega fegin að ég hef getað staðið á eigin fótum. Ég hef reynt að standa mig vel með menntun barnanna minna, litli er rétt að klára Versló og útskriftin hans er í maí,“ segir Erika en yngri sonur hennar er nítján ára. „Ég reyni að standa mig eins og ég get.“

Erika segist vera í þeirra stöðu í dag að sjá ekki fram á að fá íbúð frá félagsþjónustunni og getur ekki leigt á almennum markaði. Hún sé því föst.

„Málið er að ég er líka í vandræðum fjárhagslega, ég hef ekki efni á borga tryggingu á almenna markaðnum,“ segir hún. „Húsaleigan er svo dýr, miðað við húsaleigubætur sem ég fæ ég þarf samt kannski að borga 140 þúsund fyrir íbúð og ég hef bara ekki efni á því.“

Hún segist vera ráðalaus yfir því hvað hún eigi að gera.

„Ég væri til í að þeir myndu gefa mér tækifæri,“ segir hún. „Ég vil ekki fá vorkunn heldur tækifæri til þess að komast út úr þessu og byggja upp á nýtt lífið mtit eins og ég hef alltaf gert.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×