Innlent

Íbúðir í Reykjavík ódýrari en í öðrum höfuðborgum Norðurlandanna

Gissur sigurðsson skrifar
Áttatíu fermetra íbúðir miðsvæðis í höfuðborgum Norðurlandanna eru lang ódýrastar í Reykjavík samanborið við höfuðborgir hinna landanna og raunar þær þriðju ódýrustu í allri Vestur-Evrópu.

Þetta kemur fram í umfjöllun Politiken um íbúðaverð í Kaupmannahöfn. Þar segir að meðalverð á áttatíu fermetra íbúð miðsvæðis í Kaupmannahöfn sé um 48 milljónir íslenskra króna, eða hátt í tvöfalt dýrari en sambærilegar íbúðir í  Reykjavík, sem kosta um 25 milljónir. Taka skal fram að hér er verið að tala um meðalverð en söluverð sveiflast verulega á milli hverfa í Reykjavík.

Þá kemur fram að íbúðaverð í Osló er nærri þrefalt hærra en í Reykjavík og fjórfalt hærra í Stokkhólmi, en íbúðaverð í Helsinki er aðeins lægra en í Osló. Íbúðir af þessari stærð eru lang dýrastar í London þar sem þær kosta 160 milljónir. Ódýrastar eru þær hins vegar í Aþenu þars em þær kosta innan við 20 milljónir, næst ódýrastar í Lissabon og svo kemur Reykjavík í þriðja neðsta sætinu.

Í úttekt blaðsins er enginn samanburður gerður á kjörum við íbúðakaup, eins og til dæmis vöxtum, sem eru að öllum líkindum hærri hér en í öllum samanburðarborgunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×