Innlent

Tæplega fjórðungur sendiherra konur: „Mikið hefur áunnist í þessum efnum“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gunnar Bragi segir að eitt af þeim markmiðum undanfarna tvo áratugi hafi verið að jafna kynjahlutföll.
Gunnar Bragi segir að eitt af þeim markmiðum undanfarna tvo áratugi hafi verið að jafna kynjahlutföll. VÍSIR/Stefán / E.ÓL.
„Utanríkisráðuneytið heldur áfram að stuðla að jöfnu kynjahlutfalli í sendiskrifstofum og tryggja að störf greinist ekki í karla- og kvennastörf,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í samtali við fréttastofu.

Í síðasta mánuði kom fram skýrsla frá Ríkisendurskoðun þar sem kom fram að á árunum 2004‒14 voru sendiherrar og sendifulltrúar nær eingöngu karlar. Utanríkisráðuneytið starfrækir 22 sendiskrifstofur í 18 ríkjum. Gunnar Bragi segir að sendiherrar séu í dag 29 karlmenn og níu konur. Estrid Brekkan verður síðan skipuð sendiherra frá og með 1. ágúst nk. og verður hún tíunda konan.

Sjá einnig: Jafna þurfi kynjahlutfjöll innan utanríkisþjónustunnar

„Það er ávallt horft á kynjahlutfall þegar mönnun sendiskrifstofa er til skoðunar vegna árlegra flutninga. Það eru auðvitað fleiri þættir sem koma til skoðunar í því samhengi, t.d. hver er reynsla og þekking einstaklinga og hvar nýtist hún best, hver eru fyrirsjáanleg verkefni sendiskrifstofa á næstu árum og hvaða þekking þarf að vera fyrir hendi í sendiskrifstofum. En kynjahlutfallið er vissulega meðal þess sem litið er til.“

Í jafnréttislögum segir að atvinnurekendur skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnustað og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök karla- og kvennastörf. Í skýrslunni frá Ríkisendurskoðun er utanríkisráðuneytið hvatt til að beita sér í þessu efni.

„Þá er þess ávallt gætt að auglýsingar um laus störf beinist ekki að öðru kyninu sérstaklega. Í öllum auglýsingum er málsgrein þar sem bæði konur og karlar eru hvött til að sækja um starfið.“

Gunnar Bragi segir að eitt af þeim markmiðum undanfarna tvo áratugi hafi verið að jafna kynjahlutföll meðal starfsmanna.

„Það kemur enda fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þetta hafi þróast í rétta átt. Vegna flutningsskyldunnar og framgangskerfisins tekur þetta hins vegar talsverðan tíma, en það er alveg ljóst að mikið hefur áunnist í þessum efnum á undanförnum 15-20 árum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar má sjá þróunina frá árinu 2004-2014.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×