Enski boltinn

Sigurgangan hefur komið Wenger á óvart

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gaman að vera í Arsenal-liðinu þessa dagana.
Það gaman að vera í Arsenal-liðinu þessa dagana. Vísir/EPA
Arsenal hefur unnið átta leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og situr nú í öðru sæti deildarinnar sem yrði besta niðurstaða hjá félaginu í heilan áratug.

Sigurgangan hefur komið knattspyrnustjóranum Arsene Wenger á óvart en hann talar um gott gengi liðsins í viðtali á heimasíðu félagsins.

„Ég vonast alltaf eftir bestu úrslitunum fyrir liðið mitt en enginn knattspyrnustjóri í heimi getur í alvörunni spáð fyrir svona sigurgöngu. Það er líka mjög erfitt að sjá fyrir hluti í ensku úrvalsdeildinni," sagði Arsene Wenger.

Arsenal hefur nú unnið 16 af síðustu 18 leikjum sínum í öllum keppnum og framundan er undanúrslitaleikur í ensku bikarkeppninni um helgina. Þar mætir liðið b-deildarliðinu Reading.

„Það sem hefur skilað þessu eru gæðin og hugarfarið í liðinu sem og frábær liðsandi í hópnum," sagði Wenger.

„Við undirbúum okkur, við undirbúum okkur vel og það er öruggt að það skilar sér. Fólk gleymir líka að við vorum án sterkra leikmanna í fjóra mánuði á tímabilinu. Sex eða sjö leikmanna hafa síðan ekkert verið með okkur, " sagði Wenger.

„Það hefur verið betra jafnvægi í liðinu í sigurgöngunni og maður eins og (Francis) Coquelin hefur gert mikið fyrir liðið sem og Hector Bellerin," sagði Wenger.

„Stórir leikmenn eins og (Laurent) Koscielny, (Mesut) Ozil og (Olivier) Giroud voru allir frá í fjóra mánuði. Ég hef samt gæði á bekknum og auk þess eigum við inni leikmenn eins og Chamberlain, Arteta og Wilshere. Við erum með stóran leikmannahóp og gæði innan liðsins," sagði Wenger.

„Nú er bara að sjá hvernig við klárum tímabilið og í framhaldinu sjá hvað við getum gert á því næsta," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×