Viðskipti innlent

Nýir orkusamningar í bið hjá Landsvirkjun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Forstjóri Landsvirkjunar segir fyrirtækið komið á endastöð með nýja orkusamninga. Ekki verði samið um meiri raforkusölu fyrr en fyrir liggi hvort Alþingi leyfi fleiri virkjanakosti í rammaáætlun.

Landsvirkjun gekk í gær frá samningum um smíði Þeistareykjavirkjunar sem miða við að hún hefji raforkuframleiðslu haustið 2017. Orkan þaðan fer meðal annars til að mæta orkuþörf fiskimjölsverksmiðja á Norðausturlandi og kísilvers á Bakka.

Þegar spurt er hvaða virkjun komi þar á eftir horfir Landsvirkjun til stækkunar Búrfellsvirkjunar, segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í viðtali við Stöð 2. Öll leyfi liggi fyrir Búrfelli 2 og nýlokið sé útboðsferli verkhönnunar.

„Þannig að eins og staðan er í dag er ekki ólíklegt að stækkun Búrfellsvirkjunar verði næsta verkefni.“

Búrfellsvirkjun. Stækkun hennar verður líklegast næsta verkefni á eftir Þeistareykjavirkjun.Mynd/Landsvirkjun.
Hörður segir Landsvirkjunarmenn nú bíða eftir því hvaða stefnu Alþingi móti með rammaáætlun um virkjunarkosti en fyrr verði í raun ekki hægt að gera nýja orkusamninga. 

„Við þurfum að fá skýrar línur þar til þess að mæta þeirri eftirspurn sem við sjáum. Við sjáum mjög fjölbreytta eftirspurn frá iðngreinum sem við höfum raunverulega ekki náð til áður. Þannig að til þess að geta gert þessa samninga þurfum við að fá fleiri virkjanakosti,“ segir Hörður.

Fram hefur komið að bandaríska fyrirtækið Silicor Materials, sem undirbýr sólarkísilverksmiðju á Grundartanga, hafi óskað eftir orkukaupum frá Landsvirkjun. Getur Landsvirkjun mætt ósk Silicor?

Hörður kveðst ekki vilja tjá sig um samninga við einstaka viðskiptavini.

„En almennt séð get ég svarað því að við þurfum frekari virkjanakosti til að geta mætt frekari eftirspurn. Við höfum verið að bæta nýtingu kerfisins og bæta við notendum en við erum komin á endastöð í því.“


Tengdar fréttir

Vonast eftir breiðri sátt um rammaáætlun

Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar Alþingis vonast til þess að hægt verði að ná breiðri sátt um breytingar á rammaáætlun. Lagt er til að fimm virkjunarkostir verði færðir úr biðflokki í nýtingarflokk en Jón gerir ráð fyrir því að Alþingi afgreiði málið í vor.

Stærsti samningur um fjárfestingar frá 2003

Stærsti samningur sem gerður hefur verið um fjárfestingar hérlendis í tólf ár var undirritaður í dag, samningur um smíði tækjabúnaðar fyrir sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×