Viðskipti erlent

Trump fellir niður tolla á tugi mat­væla

Lovísa Arnardóttir skrifar
Trump bregst við hærra vöruverði með því að undanskilja ákveðnar vörur eða vöruflokka frá tollum.
Trump bregst við hærra vöruverði með því að undanskilja ákveðnar vörur eða vöruflokka frá tollum. Vísir/EPA

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur undirritað tilskipun um að ýmsar matvörur, þar á meðal kaffi, bananar og nautakjöt, verði undanskildar víðtækum tollum hans.

Tilskipunin var tilkynnt á sama tíma og verðlag hefur hækkað í Bandaríkjunum, eins og annars staðar. Í frétt BBC segir að þó svo að Trump hafi gert lítið úr áhyggjum af framfærslukostnaði hafi hann lagt áherslu á þetta eftir slakt gengi Repúblikanaflokksins í kosningunum í síðustu viku.

Ýmsar vörur eru á undanþágulista Hvíta hússins, allt frá avókadóum og tómötum til kókoshneta og mangóa. Þessar vörur, að sögn Trump-stjórnarinnar á föstudag, er ekki hægt að framleiða í nægilegu magni innanlands. Trump hefur ávallt haldið því fram að tollar hans muni ekki hafa þau áhrif að vöruverð muni hækka. Tollarnir séu nauðsynlegir til að draga úr viðskiptahalla Bandaríkjanna. Hærra verð á innfluttum vörum eigi að hvetja fólk til að kaupa bandarískar vörur í staðinn.

Á sama tíma hefur kostnaður matvöru og sérstaklega himinhátt verð á nautakjöti orðið að pólitísku máli fyrir Trump. Í síðustu viku kallaði hann eftir rannsókn á kjötvinnsluiðnaðinum og sakaði fyrirtæki um „ólöglegt samráð, verðsamráð og verðstýringu“.

Í samtali við fréttamenn á föstudag sagði Trump að ákvörðun um að undanskilja ákveðnar vörur frá tollunum myndi hafa áhrif á vörur sem eru ekki framleiddar í Bandaríkjunum og að hann eigi ekki von á því að fleiru við tollana verði breytt.

„Ég held að það verði ekki nauðsynlegt,“ sagði Trump við blaðamenn.

„Við drógum aðeins til baka tolla á sumum matvælum, eins og kaffi til dæmis, þar sem verð á kaffi var svolítið hátt. Nú verður það í lægri kantinum innan skamms,“ sagði Trump.

Tollaundanþágurnar taka gildi afturvirkt á miðnætti síðasta fimmtudags, 13. nóvember. Hvíta húsið birti lista yfir meira en 100 vörur sem ekki eru lengur háðar gjöldunum. Það eru til dæmis kaffi, kakó, svart te, grænt te, vanillustangir, ýmsar nautakjötsafurðir, fjöldi ávaxta og ýmislegt krydd og hnetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×