Innlent

Egilsstaðaflugvöllur: Starfsfólkið í greiðasölunni gat ekki lækkað í tónlistinni í flugstöðinni

Þóra Kristín Ásgeirsdótir skrifar
Afgreiðslukonan svaraði því til að hún gæti ekki lækkað þar sem tónlistinni væri stjórnað frá Reykjavík.
Afgreiðslukonan svaraði því til að hún gæti ekki lækkað þar sem tónlistinni væri stjórnað frá Reykjavík. Vísir/Getty/Vilhelm
Ásdísi Thoroddsen leikstjóra segist heldur betur hafa brugðið í brún þegar hún bað afgreiðslukonuna í greiðasölunni í flugstöðinni á Egilsstöðum um að lækka tónlistina í hátalarakerfinu.

Afgreiðslukonan svaraði því til að hún gæti ekki lækkað. Tónlistinni væri stjórnað frá Reykjavík. Isavia væri nýbúið að setja hátalakerfið upp.

Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi Isavia segir þetta misskilning í samtali við hádegisfréttir Bylgjunnar. Hann segir ótrúlegt að starfsfólkið í greiðasölunni skuli ekki vita betur. Hann viðurkenndi þó að starfsfólkið í greiðasölunni gæti ekki hækkað og lækkað en starfsmenn Isavia á flugvellinum hefðu getað lækkað í tónlistinni ef óskað hefði verið eftir því.

„Við byrjuðum fyrir stuttu síðan að spila tónlist til þess að skapa góða stemningu í flugstöðinni á Egilsstaðaflugvelli. Áherslan er á létta íslenska tónlist og er eitt af markmiðunum að kynna íslenska tónlist fyrir ferðamönnum sem fara um flugvöllinn á Egilsstöðum,“ segir Guðni Sigurðsson, verkefnastjóri í markaðsdeild Isavia.

„Mikil ánægja hefur verið á meðal farþega með þessa nýjung á flugvellinum en einhverjir hafa kvartað, sumir yfir því að tónlistin sé of hátt stillt, sumir yfir því að hún sé of lágt stillt,“ segir Guðni.

„Við tökum allar ábendingar farþega um tónlistarflutninginn inn í þá vinnu sem við erum í núna við það að finna hinn gullna meðalveg í hljóðstyrk tónlistarinnar inni í flugstöðinni. Misskilningurinn um að öllu sé stjórnað úr Reykjavík kemur líklega til vegna þess að við fengum fyrirtæki í samstarf við okkur sem sérhæfir sig í umsjón með tónlistarflutningi í verslunarmiðstöðvum, verslunum veitingastöðum og fleira til þess að sjá um að búa til spilunarlista og uppfæra mánaðarlega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×