Innlent

Fyrrverandi bæjarstjóri rekinn frá Alcoa eftir jólasveinauppistand

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Hr. Sigurðsson segir illt fyrir Seyðfirðing að missa góða vinnu hjá Alcoa sem var betur borguð en að vera bæjarstjóri á Seyðisfirði en þeirri stöðu gegndi hann áður í níu ár.
Ólafur Hr. Sigurðsson segir illt fyrir Seyðfirðing að missa góða vinnu hjá Alcoa sem var betur borguð en að vera bæjarstjóri á Seyðisfirði en þeirri stöðu gegndi hann áður í níu ár.
„Það er illt fyrir Seyðfirðing að missa góða vinnu hjá Alcoa,“ segir Ólafur Hr. Sigurðsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði, sem var  rekinn úr vinnu hjá Alcoa Fjarðarál á Reyðarfirði eftir tæplega fjögurra ára starf um síðastliðin jól.

Ólafur ritaði grein um uppsögnina sem birtist á vef Austurfréttar en ástæða hennar þykir frekar sérstök. Hann segist fyrst hafa verið rekinn sem leiðtogi í kerskála og segir ástæðuna ekki augljósa en honum var boðin vinna áfram hjá fyrirtækinu og ákvað hann að fara aftur út „á gólf“ að vinna.

„Þóttust greina uppreisnartón“

Skömmu síðar, eða í desember síðastliðnum, ákvað hann að gleðja félaga sína á „gömlu vaktinni“ í kerskálanum með því að koma í heimsókn sem jólasveinn. Hann færði þeim sælgæti og gos og var jafnframt með jólasveinauppistand. Þessi uppákoma var tekin upp á myndband og sett á netið en nokkrum dögum síðar var hann boðaður á fund í álverinu þar sem honum var tilkynnt að inn fyrir dyr álversins kæmi hann ekki aftur og segir Ólafur þetta jólasveinauppistand hafa farið fyrir brjóstið á yfirmönnum hans.

„Einhverjir af toppunum hjá Fjarðaráli þóttust greina uppreisnartón í jólasveininum og að hann hefði gert grín að fyrirtækinu, slíkt væri ekki líðandi,“ skrifaði Ólafur.

Hann er því atvinnulaus í dag eftir þetta jólasveinauppistand sitt og á ekki von á því að fá aftur vinnu í álverinu. Hann segist ekki vita hvað það var sem fór svo fyrir brjóstið á yfirmönnum hans varðandi þetta jólasveinauppistand.

„Ég er ennþá að reyna að skilja það. Það var með góðum vilja hægt að lesa út úr því að ég væri fúll en það þurfti að leggja sig í líma við það. Það var ekkert sem var niðrandi eða meiðandi eða hægt að pirra sig yfir hjá Alcoa. Hjá sumum fyrirtækjum hafa menn pínulítinn húmor fyrir sjálfum sér en það örlar ekki fyrir því þarna,“ segir Ólafur í samtali við Vísi um málið og bætir við:

„Ég hefði kannski átt að halda því fram að ég hefði ekki verið jólasveinninn heldur lögfræðingurinn minn, nota bara Al Thani-aðferðina.“

Betur borgað en að vera bæjarstjóri

Hann stendur því uppi atvinnulaus í dag en tók til að mynda páskatúr á togaranum Gullveri á Seyðisfirði og hefur unnið aðeins við höfnina.

„Ég hef aldrei verið atvinnulaus maður. Alltaf haft nóg að gera. Ég var bæjarstjóri á Seyðisfirði í níu ár og verið skólastjóri og skólameistari þannig að ég er ekkert voðalega stressaður yfir því að fá ekki vinnu en það er bara ekki mikla vinnu að hafa á Seyðisfirði og það er illt fyrir Seyðfirðing að missa góða vinnu hjá Alcoa því þeir borga þó ágætis laun. Það er betur borgað þar en að vera bæjarstjóri á Seyðisfirði. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×