Innlent

Sveinbjörg „gúgglaði“ ekki dóma um sýningu Bjarkar

Birgir Olgeirsson skrifar
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Vísir/Valli
„Ég samþykkti þetta bara líka en ég vissi ekki að sýningin hefði verið að fá svona slæma dóma,“ segir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi framsóknar og flugvallarvina, sem sagði á Facebook fyrr í dag að það hefðu verið mistök af sinni hálfu að samþykkja í borgarráði að fá sýningu tileinkaða Björk Guðmundsdóttur í MoMA - Samtímalistasafninu í New York, til Reykjavíkur.

Dagur B. Eggertsson lagði fram tillögu þess efnis þann 24. mars síðastliðinn að borgarráði feli sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs að vinna áfram að undirbúningi og könnun á möguleikum þess að sýningin komi til Reykjavíkur.

Var Sveinbjörg á meðal þeirra fulltrúa í borgarráði sem samþykkti þessa tillögu 26. mars síðastliðinn og segir í dag að það hefði verið klúður vegna þess hve slæma dóma sýningin er að fá.

Hefði mátt „gúggla“ betur

Það sem vekur hins vegar athygli í þessu er að slæmir dómar um sýninguna lágu fyrir þremur vikum áður en Sveinbjörg Birna samþykkti þessa tillögu og höfðu íslenskir fjölmiðlar gert þeim skil. (Sjá hér, hér, hér, hér og hér)

Frægt er orðið Kastljós viðtal Sigmars Guðmundssonar við Sveinbjörgu Birnu nú fyrir páska þar sem hann spurði hana hvers vegna framsókn og flugvallarvinir hefðu ákveðið að tilefna Gústaf Níelsson sem varamann í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar. Sagði Sveinbjörg við það tilefni að hún hefði mátt „Gúggla hann betur“ en „gerði það ekki“.

Sjá einnig:Ummæli Sveinbjargar orðin að heilalími

„Ekki sérfræðingur í öllu“

Því hlýtur því að liggja beinast við að spyrja Sveinbjörgu hvort hún hefði ekki mátt „gúggla“ sýninguna í MoMA betur áður en hún samþykkti tillöguna í borgarráði.

„Ég er ekkert að fylgjast eitthvað rosalega vel með dómum um einhverja listsýningar út í heimi. Maður er ekki sérfræðingur í öllu en þú getur spurt mig um nýjustu breytingar á skattalögunum, ég er allavega búinn að gúggla þær,“ svarar Sveinbjörg.

Hún vonast til að Reykjavíkurborg þurfi ekki að borga mikið fyrir þessa sýningu. „Mér finnst að við eigum að fá þetta frítt. Reykjavíkurborg ól af sér Björk og mér finnst að við eigum ekki að borga mikið fyrir hana,“ segir Sveinbjörg og á þar við að Reykjavíkurborg eigi ekki að þurfa að greiða mikið fyrir sýninguna. 

Úr fundargerð borgarráðs 26. mars 2015. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. mars 2015: Borgarráð...

Posted by Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir on Thursday, April 9, 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×