Innlent

Þau vilja verða safnstjóri Listasafns Reykjavíkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Safnstjóri er listrænn stjórnandi með ábyrgð á sýningadagskrá og annarri faglegri starfsemi safnsins í samræmi við alþjóðlegar siðareglur, lög og samþykktir. Hafþór Yngvason hefur gegnt starfinu undanfarin tíu ár.
Safnstjóri er listrænn stjórnandi með ábyrgð á sýningadagskrá og annarri faglegri starfsemi safnsins í samræmi við alþjóðlegar siðareglur, lög og samþykktir. Hafþór Yngvason hefur gegnt starfinu undanfarin tíu ár. Vísir/Vilhelm
Tíu sóttu um stöðu safnstjóra Listasafns Reykjavíkur sem auglýst var laus til umsóknar í síðasta mánuði. Umsóknarfrestur rann út þann 6. apríl sl. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.

 

Umsækjendur um stöðuna eru:

Auður Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður

Halldóra Arnardóttir, listfræðingur

Jón Andri Óskarsson, nemi

Kristbjörg Ýrr Jónasdóttir, forstöðumaður

Margrét Elísabet Ólafsdóttir, kennari

Ólöf Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður

Tryggvi Jónsson, aðstoðarveitingastjóri

Yean Fee Quay, deildarstjóri

Æsa Sigurjónsdóttir, dósent

 

Listasafn Reykjavíkur hýsir þrjú megin söfn í þremur sýningarhúsum; safn Ásmundar Sveinssonar í Ásmundarsafni, safn Jóhannesar Kjarvals á Kjarvalsstöðum og safn verka Erró í Hafnarhúsi. Listasafn Reykjavíkur hefur jafnframt umsjón með myndverkum á almannafæri í eigu borgarinnar.  

Í tilkynningu frá safninu segir að safnstjóri sé listrænn stjórnandi með ábyrgð á sýningadagskrá og annarri faglegri starfsemi safnsins í samræmi við alþjóðlegar siðareglur, lög og samþykktir. Safnstjóri beri einnig ábyrgð á stjórnun, rekstri og stjórnsýslu safnsins. Undir verksvið heyra fjármál, starfsmannamál og framkvæmd ákvarðana menningar- og ferðamálaráðs og borgaryfirvalda sem að safninu snúa.  

 

Næsti yfirmaður er sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs sem fer með framkvæmd menningar- og ferðamála hjá Reykjavíkurborg. Sviðsstjóri ræður safnstjórann til fimm ára að höfðu samráði við menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar og getur ákveðið að framlengja ráðningu safnstjóra einu sinni til næstu fimm ára.

 

Gert er ráð fyrir að tillaga um ráðninguna liggi fyrir eigi síðar en í byrjun maí og að nýr safnstjóri taki til starfa í ágúst. Hafþór Yngvason, sem hefur stýrt Listasafni Reykjavíkur síðastliðin tíu ár, lætur af störfum í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×