Innlent

Stuðningsmenn Séra Erlu fengu almenna prestskosningu í gegn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Messa í þann mund að hefjast í Keflavíkurkirkju.
Messa í þann mund að hefjast í Keflavíkurkirkju. Mynd/Heimasíða Keflavíkurkirkju
Almenn prestskosning mun fara fram í Keflavíkursókn en 1807 undirskriftum var safnað málstaðnum til stuðnings og þær afhentar biskupsstofu. Stuðningsmenn Séra Erlu Guðmundsdóttur, sem starfað hefur sem prestur í kirkjunni undanfarin sex ár, stóðu fyrir söfnuninni.

Undirskriftir fleiri en þriðjungs sóknarbarna þarf til að knýja fram almenna kosningu. Alls eru 4574 skráðir í þjóðkirkjuna í Keflavík og þurfti því 1525 undirskriftir. Víkurfréttir greina frá.

Séra Skúli Ólafsson, sóknarprestur Keflavíkurprestakalls til níu ára, sagði nýlega upp störfum en hann þjónar nú fyrir altari í Neskirkju. Skúli er eiginmaður Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu en hún var áður lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Allajafna er tekið mið af lögum um val á opinberum embættismönnum þegar ráðið er í stöðu prests í sóknum landsins. Í kosningunni í Keflavíkursókn munu hins vegar sóknarbörnin ráða því hver verður næsti sóknarprestur.

Uppfært klukkan 14:19

Einn þeirra sem skrifaði undir bendir á að ekki séu allir 1807 stuðningsmenn Séra Erlu. Hann hafi einfaldlega viljað að prestskosningar færu fram og því skrifað undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×