Innlent

FA krefur ríkið um endurgreiðslu á rúmum 300 milljónum

Heimir Már Pétursson skrifar
Innflutningsfyrirtæki búvara hafa nú þegar greitt útborðsgjald vegna innflutnings á þessu ári þótt varan hafi ekki öll verið flutt inn. Héraðsdómur segir gjaldið brot á stjórnarskrá.
Innflutningsfyrirtæki búvara hafa nú þegar greitt útborðsgjald vegna innflutnings á þessu ári þótt varan hafi ekki öll verið flutt inn. Héraðsdómur segir gjaldið brot á stjórnarskrá.
Félag atvinnurekenda krefst þess að ríkisvaldið endurgreiði innflytjendum matvöru frá Evrópusambandinu rúmar 300 milljónir af fyrirframgreiddu útboðsgjaldi vegna innflutningsins, í ljósi þess að héraðsdómur hafi dæmt gjaldið ólöglegt. Verð á innfluttri búvöru gæti lækkað um tugi prósenta með afnámi gjaldsins.

Félag atvinnurekenda hefur sent atvinnuvegaráðuneytinu bréf og farið fram á að útboðsgjald á tollkvóta fyrir búvörur, sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi sl. þriðjudag að væri í andstöðu við stjórnarskrá, verði endurgreitt þeim fyrirtækjum sem ekki hafi þegar nýtt innflutningsheimildir sínar.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir innflytjendur greiða útboðsgjald vegna innflutnings búvara ár fram í tímann. Það sé gert í upphafi árs vegna innflutnings frá ríkjum Evrópusambandsins.

„Núna í upphafi árs eru fyrirtæki t.d. búin að borga rúmar 300 milljónir króna fyrir tollfrjálsan kvóta frá Evrópusambandinu. En fæst eru búin að flytja inn nema lítinn hluta af honum. Þannig að sjálfsögðu á ríkið að endurgreiða þetta gjald sem dómstólar eru búnir að dæma ólöglegt,“ segir Ólafur.

Ef ríkið endurgreiði ekki gjaldið sé það að þvinga innflytjendur búvara frá Evrópusambandinu til að hleypa gjaldinu út í verðlagið eins og gerst hafi undanfarin ár. Afnám þessa gjalds skipti miklu máli fyrir neytendur.

„Fyrir kíó af innfluttum kjúklingi  t.d. er gjaldið 618 krónur. Ef það væri tekið af myndi poki af kjúklingabringum út úr búð lækka í verði frá 1.600 til 1.800 krónum niður í þúsundkall til tólfhundruð krónur. Neytendur munar um minna,“ segir Ólafur.

Gjaldið nær einnig til annarra kjöttegunda, osta og almennt allrar búvöru sem flutt er inn frá Evrópusambandinu. Útboðsgjald vegna vöru sem flutt er inn á grundvelli Alþjóðatollabandalagsins (WTO) er hins vegar greitt fyrirfram um mitt ár.

Félag Atvinnurekenda krefst þess að atvinnuvegaráðuneytið svari því fyrir morgundaginn hvort gjaldið verði endurgreitt, en ekki liggur fyrir hvort ríkið ætlar að áfrýja dómi héraðsdóms til Hæstaréttar.

„Það stendur náttúrlega þetta álit héraðsdóms að útboðsgjaldið fari í bága við stjórnarskrá. Þá hlýtur ríkið að bregðast við,“ segir Ólafur. En hvað með þau útboðsgjöld sem fyrirtæki hafa greitt á árum áður?

„Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að endurgreiða gjaldið aftur í tímann vegna þess að innflytjendur hefðu velt þessu út í verðlagið. En vara þar sem búið er að greiða útboðsgjald en er ekki seld um hana gegnir öðru máli. Ef ríkið ætlar að halda þessu til streitu er beinlínis verið með ólöglegum og ómálefnalegum hætti verið að velta þessu tjóni yfir á neytendur,“ segir Ólafur Stephensen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×