Innlent

Málsvarnarlaun lögmanna hækka verulega

Jakob Bjarnar skrifar
Sveinn Andri Sveinsson.
Sveinn Andri Sveinsson. Vísir/Valli
Málsvarnarlaun og þóknanir verjenda og réttargæslumanna í sakamálum hafa verið hækkuð með ákvörðun dómstólaráðs. Þetta kemur fram í tilkynningu dómstólaráðs um viðmiðunarreglur fyrir héraðsdómstólana, sem birt var í lok janúar.

Vísir ræddi við hinn kunna lögmann Svein Andra Sveinsson, um þessa hækkun sem vakið hefur nokkra athygli. Sveinn Andri segir það rétt, mörgum virðist þetta mikil hækkun en það sljákki í mannskapnum þegar staðreyndirnar liggja fyrir.

Málsvarnarlaun, ekki tímakaup

Morgunblaðið greindi frá þessari ákvörðun ráðsins í morgun. Tímakaup verjenda fer úr 10 þúsund kr. í 16.500 kr. eða um 65 prósent og tekið er fram í reglunum að málsvarnarlaunin skuli aldrei vera lægri en 78.000 krónur, sem er hækkun úr 46.700 krónum.

Fréttastofa ræddi við Ingimar Ingimarsson, framkvæmdastjóra Lögmannafélagsins. Hann sagði eðlilegt að svo stórt stökk vekti athygli, ekki síst nú þegar kjaramál eru mjög í deiglunni, en tók fram að um væri að ræða löngu tímabæra leiðréttingu, þetta hefur verið óbreitt í tíu ár og í raun lengur.

Þá væri misskilningur uppi; ekki er um að ræða tímatímalaun lögmanna heldur er um málsvarnarlaun að ræða. Þar er munur því litið er til reksturs lögmannastofu þeirrar sem um ræðir, lítill hluti eru laun sem slík.

Lágmarksþóknun verjenda og réttargæslumanna fyrir að mæta við fyrirtöku hjá lögreglu eða dómara hækkar úr 20.000 kr. í 52.000 kr., sem er um 160 prósenta hækkun. Standi fyrirtaka lengur en í tvær klukkustundir greiðist hver byrjuð klukkustund fram yfir það með 16.500 krónum samkvæmt viðmiðunarreglum dómstólaráðs.

Leiðrétting – ekki hækkun

Sveinn Andri tekur í sama streng og Ingimar, þegar hann er spurður um þessa verulegu hækkun en lögmenn hafa hingað til verið taldir ágætlega settir með sitt?

„Þetta er nú bara leiðrétting, í raun og veru, þó það hljómi eins og klisja. Ég bendi á að þessi taxti verjenda var 11.200 í ársbyrjun 2008. Útkallið var 34,200, ef ég man rétt. Þetta var svo lækkað einhliða með reglugerð haustið 2009. Umreiknum þetta með verðlagsforsendum yfir í þessa 16,500 krónur sem er tímagjaldið núna, þá er ég ekkert viss um að hækkunin sé mjög mikil,“ segir Sveinn en tekur fram að hann sé nú ekki mikill reiknimeistari.

Lögmaðurinn bendir jafnframt á að hafa verði í huga að annars vegar sé þetta tímagjald miklu lægra en tíðkast í öðrum lögmannsverkefnum. Það hafi verið upplegg í okkar samfélagi að sakborningar í sakamálum eigi rétt á verjanda og ríkið leggi út fyrir þóknun verjendanna. „Það er þá nauðsynlegt að einhverjir lögmenn fáist í þessi störf aðrir en þeir sem eru nýútskrifaðir. Þetta tímagjald og þessi þóknun verður að vera með þeim hætti.“

Engin ofrausn

Sveinn segir að sumir lögmenn séu að rukka 30 þúsund á tímann í einkamálum.

„Það blasir við að samanburðurinn er óhagstæður.“

Sveinn Andri fylgist vel með samfélagsumræðunni og hann segist hafa orðið var við hneykslun vegna þessarar hækkunar.

„Eitthvað aðeins. En þegar kynnt er fyrir fólkinu hversu lítil hækkunin er, og þetta er leiðrétting, held ég nú að það sljákki í fólki. Taxtinn var lágur í ársbyrjun 2008. Þetta er engin ofrausn og ég veit ekki hver verðbólgan hefur verið á þessum tíma?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×