Innlent

Vorið að koma: Farfuglar streyma til landsins

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þó það sé ekki margt sem minnir á vorið á íslandi eins og staðan er í dag þá er engu að síður kominn vorhugur í fuglaáhugamenn landsins, því þeir fylgjast grannt með og skrá niður hvaða farfuglar eru komnir og eru spenntir að sjá í hvaða röð næstu fuglar koma. Björn Gísli Arnarsson á Höfn í Hornafirði er einn þessara áhugamanna.



„Álftin er aðeins byrjuð að koma og aðeins ein og ein grágæs með þeim og sílamávar hafa sést á suðvesturhorninu og suðvesturlandinu. Skúmurinn er mættur hér allavega hérna á miðin í kringum okkur, við Hrolllaugseyjarnar. Ekki frétt af honum uppi á landi samt en hann er farinn að nálgast okkur,“ segir Björn.



En er tjaldurinn kominn? „Maður veit ekki alveg hvort hann sé kominn, það er alltaf svolítið magn af tjaldi á landinu á veturnar en hann er farinn að dreifa sér um landið. Hann gæti líka verið farinn að koma svolítið erlendis frá,“ segir Björn. „Svo svona upp úr 20. mars þá fara þrestirnir að streyma til okkar.“



Björn segir að von sé á heiðlóunni í lok marsmánaðar.



Eru fuglarnir ekki feimnir að fljúga til Íslands í það leiðindaveður sem hefur verið á landinu síðustu misseri? „Nei ég held þeir láti það lítil áhrif hafa á sig. Bara þegar það fer að vora, þá nálgast þeir. Svo takast þeir bara á við það greyin, þegar þeir eru komnir á klakann,“ segir hann, sem telur vorið vera að koma.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×