Innlent

Lögreglumanni vikið úr starfi: Dró sér 15 milljónir úr sjóði íslenskra leikara

Atli Ísleifsson skrifar
Ákærði starfaði sem lögreglumaður en brot hans tengdust ekki lögreglunni eða störfum hans hjá embættinu á nokkurn hátt.
Ákærði starfaði sem lögreglumaður en brot hans tengdust ekki lögreglunni eða störfum hans hjá embættinu á nokkurn hátt. Vísir/Getty/Pjetur
Lögreglumanni á Vestfjörðum hefur verið vikið úr starfi eftir að upp komst að hann hafði dregið sér alls 15,5 milljón króna úr sjóðum Félags íslenskra leikara á fjórtán ára tímabili.

Í ákæru kemur fram að maðurinn, sem er á sextugsaldri, hafi sem stjórnarmaður Söngvarasjóðsins í Reykjavík, sem er undirsjóður innan 6. deildar Félags íslenskra leikara, millifært af reikningi Söngvarasjóðsins yfir á eigin reikning 14,4 milljónir og reikning hans og móður sinnar rúma eina milljón króna. Maðurinn nýtti féð í eigin þágu.

Færslurnar úr sjóðnum voru alls 113 talsins þar sem sú fyrsta var gerð um mitt ár 2000 og sú síðasta árið 2013. Millifærslurnar námu allt frá 1.500 krónum til 695 þúsund króna.

Í ákæru er þess krafist að hann verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Félag íslenskra leikara krefst skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 15.484.865 króna með dráttarvöxtum.

Lét af störfum hjá lögreglu þegar upp komst um málið

Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, staðfestir í samtali við Vísi að lögreglumaður sem starfaði í liðinu, með starfsstöð á Hólmavík um tíma, hafi verið kærður fyrir auðgunarbrot síðla árs í fyrra. „Í framhaldi kærunnar var gert samkomulag við lögreglumanninn um að hann léti af störfum strax, það var í desember síðastliðnum.“

Hlynur tekur fram að meint brot mannsins hafi ekki tengst lögreglunni eða störfum hans hjá embættinu á nokkurn hátt.

Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara, segir í samtali við Vísi að margar ástæður séu fyrir því að ekki hafi komist upp um málið fyrr. Nú sé málið þó komið í hendur lögreglu þar sem það muni hafa sinn gang. Birna vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur síðar í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×