Innlent

Ekki ljóst hvort A-prófin séu komin til að vera

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Þetta snýst í sjálfu sér um það að reyna að tryggja það að nemendur sem hefja námið geti tekist á við það,“ segir Þórður.
"Þetta snýst í sjálfu sér um það að reyna að tryggja það að nemendur sem hefja námið geti tekist á við það,“ segir Þórður. vísir/gva
Fjórar deildir innan Háskóla Íslands munu í ár notast við svokölluð A-próf til að taka inn nemendur. Allar notast þær við sama inntökuprófið en það er til þess fallið að spá fyrir um námsárangur stúdenta við háskóla. Um er að ræða lagadeild, hjúkrunarfræðideild, hagfræðideild og læknadeild. Tvær síðastnefndu nota einnig frekari próf til inntöku nema.

Hjúkrunarfræði- og læknadeildir munu í fyrsta sinn í ár notast við prófin. Fyrstu A-prófin, eða aðgangspróf fyrir háskólastig, voru haldin árið 2013. Þá var það hagfræðideild sem notaðist við prófin og fylgdi lagadeild í kjölfarið. Allir þeir sem þreyttu prófið í lagadeild í fyrra náðu prófinu og komust þar af leiðandi í háskólann.

Minna um brottföll

Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslumála, segir að verkefnið sé enn í þróun og því sé ekki hægt að segja til um hvort A-prófin séu komin til að vera. Meiri reynslu þurfi en að ljóst sé að þau hafi minnkað brottföll nemenda úr einstaka deildum.

„Það hefur verið töluvert brottfall í bæði hagfræði- og lagadeild. Í byrjun var það kannski ástæðan að reyna að draga úr brottfalli í greinum þar sem eru mjög stórir hópar sem byrja. Hagfræðideildin er ekki mjög stór deild en það var byrjað þar, en það er deildin sjálf sem vildi taka upp prófin,“ segir Þórður.

Stendur öllum deildum til boða

Þá segir hann það ekki liggja fyrir hvort fleiri deildir muni taka upp prófin. Það sé ákvörðun hverrar deildar fyrir sig og standi öllum 25 deildum skólans til boða. Þó séu líkur á að fleiri deildir muni notast við prófin í framtíðinni.  

„Þetta snýst í sjálfu sér um það að reyna að tryggja það að nemendur sem hefja námið geti tekist á við það. Að nemendur séu búnir að afla sér undirbúnings sem geri þeim kleift til að stunda námið,“ segir hann.

A-prófið, eða aðgangspróf fyrir háskólastig, er hugsað sem færnipróf en ekki þekkingarpróf. Því er ætlað að meta getu stúdenta í málnotkun, talnaleikni, rökhugsun og til skilnings á texta og fleiri þáttum sem reynir á í háskólanámi.

Haldin verða tvö próf í ár. Fyrsta prófið verður haldið næsta laugardag, 21. mars og hið síðara 12. júní. Frekari upplýsingar má finna á vef Háskóla Íslands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×