Innlent

Mónakó og Monte Carlo fá ekkert frá Reykjavík

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Eigendur Monte Carlo vildu bætur frá Reykjavík vegna neikvæðrar umsagnar.
Eigendur Monte Carlo vildu bætur frá Reykjavík vegna neikvæðrar umsagnar. Vísir/Daníel
Eigendur Monte Carlo og Mónakó fá ekki skaðabætur frá Reykjavíkurborg vegna umsagnar sem borgin skilaði til lögreglunnar vegna endurnýjunar á rekstrarleyfum staðanna tveggja. Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu í dag .



Margeir Margeirsson, vert á börunum tveimur, stefndi borginni og fór fram á skaðabætur upp á tæpar fimmtán milljónir króna vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir á árunum 2007 til 2012 þegar erfiðlega gekk að endurnýja rekstrarleyfi staðanna.



Borgarráð Reykjavíkur gaf út neikvæðar umsagnir vegna rekstrarleyfanna og lagðist þannig gegn því að þau yrðu endurnýjuð. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tók mið af því í ákvörðun sinni og hafnaði endurnýjun.



Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu var tvívegis gerður afturreka með ákvarðanir sem vörðuðu Mónakó og Monte Carlo. Í fyrra skiptið, árið 2008, var ákveðið að takmarka opnunartíma þeirra, og árið 2012 var ekki fallist á endurnýjun rekstrarleyfisins.



Málin rötuðu á borð innanríkisráðuneytisins þar sem lögreglunni var gert að taka málin upp að nýju. Meðal annars var það niðurstaða ráðuneytisins að ekki hafði verið gætt að andmælarétti Margeirs í umsagnarferlinu auk þess sem borgin hafði í umsögnum sínum farið út fyrir valdsvið sitt.



Þrátt fyrir það fellst dómurinn ekki á að Reykjavíkurborg hafi bakað sér skaðabótaskyldu en samkvæmt lögum á borgin að gefa umsögn.



Tengdar fréttir

Eigandi Monte Carlo ætlar að stefna borginni og lögreglunni

Margeir Margeirsson, eigandi veitingastaðanna Mónako og Monte Carlo á Laugavegi, ætlar að höfða skaðabótamál gegn lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavík vegna þeirrar ákvörðunar að synja stöðunum um veitingaleyfi. Ákvörðunin var tekin á grundvelli neikvæðrar umsagnar borgarráðs, en innanríkisráðuneytið hefur úrskurðað að með umsögninni hafi borgarráð farið út fyrir umsagnarsvið sitt og með því brotið gegn stjórnsýslulögum. Margeir segist í fréttastofu hafa varið um 10 milljónum króna í lögfræðikostnað vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×