Innlent

Fólk gæti misst bótaréttinn ef það er ekki virkt í atvinnuleit

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra. vísir/ernir
„Könnun okkar á því hvað varð um þá einstaklinga sem misstu bótaréttinn við þar síðustu styttingu á bótaréttinum þegar farið var úr fjórum árum niður í þrjú ár sýndi það þriðjungur þeirra leitaði eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum,“ segir Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, en hún talaði um fyrirhugaðar breytingar á reglum varðandi atvinnuleysisbætur í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun.

„Þannig að meginþorri þeirra sem missti bótaréttinn fékk vinnu. Síðan erum við með tölur frá meðal annars Hafnarfjarðarbæ þar sem sett hafa verið ákveðin skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð og þau eru t.d. að viðkomandi þarf að vera í virkri atvinnuleit til að fá aðstoð.“

Eygló segir að mun skýrari rammi verði settur utan í málaflokkinn ef frumvarp hennar fer í gegn.

„Þar kemur fram að markmið okkar er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Það hefur síðan komið áður í ljós að einstaklingar eiga til að hafna þeirra hjálp og fara þar að leiðandi af fjárhagsaðstoðinni.“

Hafa reglurnar því ekki verið hvetjandi fyrir fólk til þess að leita sér að vinnu?

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að sú aðstoð sem við erum að bjóða uppá í öllu velferðarkerfinu styðji fólk til þess að hjálpa sér sjálft. Í mínum huga er vinna forsenda velferðar.“

Eygló segir það brjóta fólk niður að vera lengi frá vinnumarkaðnum.

„Við erum samt einnig að aðstoða fólk sem hefur aldrei farið út á vinnumarkaðinn og veit ekki hvað það er að vera á vinnumarkaðnum. Þar skiptir gríðarlega miklu máli að við hjálpum fólki, sérstaklega ungu fólki. Við erum kannski að tala um þrítugan einstakling og ef að við aðstoðum hann ekki til sjálfshjálpar þá verður hann til 67 ára aldurs á framfæri hins opinbera. Frumvarpið sem liggur núna fyrir inni hjá velferðarnefnd gengur út á mikilvægi þess að fólk hjálpi sér sjálft. Þetta er það sem sveitarfélögin eru að kalla eftir og benda á góðan árangur.“

Hún segir að með réttri aðstoð sé hægt að hjálpa fólki að fá vinnu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×