Innlent

Drengur með sjaldgæft heilkenni varð fyrir grófu einelti

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Fjórtán ára drengur í Hafnarfirði lenti í grófu einelti í Setbergsskóla í Hafnarfirði en hann fæddist með sjaldgæft heilkenni. Móðir drengsins segir ofbeldið hafa viðgengist árum saman og skólinn hafi ekki tekið á málinu fyrr en hún klagaði í skólaskrifstofuna.

Birkir Emil Thor-Björnsson er bara fjórtán ára en hefur reynt meira en margir upplifa á heilli mannsævi. Goldenhar-heilkennið er sjaldgæfur fæðingargalli sem leggst yfirleitt á andlitið en hefur líka áhrif á vöxt, gang og jafnvægi. Birkir gengur í Setbergsskóla í Hafnarfirði, og þurfti að þola gróft einelti, alla sína skólatíð. Hann segir að bekkjakennarinn fyrstu þrjú árin hafi haft stjórn á bekknum og tekið fyrir eineltið að mestu leyti en þegar sá hætti hafi ofsóknirnar hafist en þær náðu hámarki þegar hann var í fimmta og sjötta bekk.

Birkir Emil hugleiddi sjálfsvíg á þessum tíma en hann mátti þola barsmíðar, hótanir og ýmsa niðurlægingu. Móðir hans segir skólayfirvöld hafa viljað halda málinu innan skólans og þagga það niður en í raun ekki tekið fast á því fyrr en hún leitaði til skólaskrifstofunnar í Hafnarfirði. Nýr bekkjarkennari tók svo á málinu í fyrra og eineltinu linnti. Síðasta alvarlega atvikið var þó þegar hópur barna hrakti hann skólausan úr skólahúsnæðinu og elti hann með farsíma á lofti, og sagðist ætla að taka af honum myndir og setja á Facebook-síðu til að sýna heiminum að hann væri ljótur.

Birkir er ánægður með nýja kennarann sinn sem hann segir að haldi uppi góðum aga í bekknum auk þess að vera góður kennari og skemmtilegur. Hann segist ekki reiðubúinn að fyrirgefa börnunum sem beittu hann ofbeldi þótt það hafi oft verið stungið uppá því. Hann svari því bara neitandi. Hann getur því aftur notið þess að ganga í skóla en hann er góður námsmaður og dreymir um að verða stjörnufræðingur í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×