Innlent

Vindur fer vaxandi

vísir/auðunn
Vindur fer vaxandi til hádegis og víða verður skafrenningur og blinda af þeim sökum. Óvíða þó ofanhríð nema syðst á landinu. Reiknað er með hviðum 30-40 metrum á sekúndu á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli fram yfir hádegi, en síðan fæst betra skjól með hægstæðari vindátt á þeim slóðum.

Ofsaveður verður sums staðar við þjóðveginn frá Hvolsvelli og austur fyrir Öræfi meira og minna í allan dag. Það verða staðbundnir mjög snarpir sviptivindar með ofankomu, skafrenningi og sandfoki austur yfir sandana.

Færð og aðstæður:

Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði, Sandskeiði og Þrengslum. Óveður er undir Hafnarfjalli, Kjalarnesi og í Hvalfirði. Á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum er hálka og skafrenningur. Hálkublettir eru á nokkrum köflum á Suðurlandi, einkum í uppsveitum.

Hálka eða hálkublettir eru allvíða á Vesturlandi. Ófært er á Fróðárheiði. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiðinni.

Á Vestfjörðum er víðast hálka eða snjóþekja og skafrenningur. Þæfingsfærð frá Súðavík að Ögur. Ófært er á Kleifaheiði og Hálfdáni en Þungfært og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Gemlufallheiði. Hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum á Norðurlandi.

Á Norðurlandi eystra og Austfjörðum er hálka á flestum vegum og eitthvað um hálkubletti. Greiðfært er að mestu með suðausturströndinni en mikið hvassviðri. Óveður undir Eyjafjöllum. Ófært og Stórhríð á Reynisfjalli. Óveður í Öræfasveitinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×