Innlent

Benedikt Atli hlaut nýsköpunarverðlaun forseta Íslands

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Benedikt Atli Jónsson við verðlaunaafhendinguna í dag.
Benedikt Atli Jónsson við verðlaunaafhendinguna í dag.
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2015 voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Verkefnið sem verðlaunin hlaut að þessu sinni heitir Sjálfvirkt gæðamat augnbotnamynda. Það var unnið af Benedikt Atla Jónssyni, nema í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands.

Erfitt hefur reynst að meta gæði og skerpu augnbotnamynda, en þær eru mikilvægar í augnlækningum til að greina og fylgjast með augnsjúkdómum. Árangur greininganna ræðst þó af myndgæðum.

Sjálfvirka aðferðin, sem þróuð var í þessu verkefni, metur myndgæði með mun áreiðanlegri hætti en sérfræðingar. Því er ólíklegra að endurtaka þurfi myndatöku síðar vegna lélegra myndgæða. Þá felur aðferðin í sér ýmsa möguleika til hagnýtingar sem hugbúnaðarvara fyrir augnbotnamyndatökur og fleira, að því er fram kemur í tilkynningu frá Rannís.

Sjálfvirka aðferðin mun verða hluti af næstu hugbúnaðaruppfærslu Oxymap, sem hefur þróað tæki og hugbúnað til að greina augnbotnamyndir. Aðferðin er einnig komin í notkun á Landspítalanum og áhugi er á henni erlendis.

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega þeim námsmönnum sem unnið hafa framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið áður. Verðlaunagripurinn er listaverkið Óljóst (2015) eftir listamanninn Þór Sigurþórsson. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×