Innlent

Börn hafa sloppið út af leikskólum á Íslandi

Atli Ísleifsson skrifar
Herdís Storgaard og Elijah Marsh.
Herdís Storgaard og Elijah Marsh. Vísir/Valli
„Það hefur gerst hér á landi að börn hafi sloppið út af leikskólum. Verið sofandi inni í herbergi og farið út,“ segir Herdís Storgaard, verkefnastjóri hjá Miðstöð slysavarna barna, um atvikið í Toronto þar sem þriggja ára drengur laumaðist út úr íbúð ömmu sinnar um miðja nótt og varð úti.

Herdís segir að það sem hún hafi verið að ráðleggja foreldrum er að það þarf líka að vera öryggislæsing á gluggum þannig að barn geti ekki sloppið út. „Þau geta líka hreinlega dottið út. Svo þarf líka að spá í eldvarnir svo það er vandlifað. Börn mega ekki geta sloppið út á neinn hátt. Það er spurning hvernig fólk leysir það og það er allur gangur á því.“

Elijah Marsh, þriggja ára gamall kanadískur drengur, lét lífið á laugardaginn eftir að hafa haldið út ískalda nóttina á meðan amma hans svaf fasta svefni. Sá stutti var aðeins klæddur í bleyju og bol auk stígvéla og fannst síðar um morguninn í næsta nágrenni. Hann var úrskurðaður látinn þegar á sjúkrahús var komið.

Herdís segir að hún viti til þess að börn hafi sloppið út af leikskólum, en að það hafi einnig gerst hér á landi að barn hafi farið út úr heimahúsi um nótt. „Það barn fannst þó sem betur fer. Þá hafi einhver orðið var við einhvern umgang og kannað málið og séð að barnið hafði þá laumast út.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×