Innlent

Stjörnufræðingar klóra sér í kollinum yfir skýjum á mars

Samúel Karl Ólason skrifar
Undanfarna daga hafa vísindamenn tekið eftir gífurlega stórum skýjabólstrum á yfirborði plánetunnar Mars. Ekki er vitað hvað er þarna á ferðinni en nokkrir möguleikar koma til greina.

Sævar Helgi Bragason frá stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness, ræddi málið í Reykjavík síðdegis í gær.

„Stjörnuáhugamenn klóra sér í hausnum jafn mikið og stjörnufræðingar þar sem að enginn virðist vita hvað í raun og veru veldur þessum bólstrum sem sjást á Mars. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta hefur sést og hefur sést í myndum frá Hubble sjónaukanum.

„Stjörnuáhugafólk hefur líka tekið myndir af samskonar bólstrum fyrr og síðar reyndar líka. Þetta er áhugavert fyrirbæri í lofthjúpnum sem að menn eru að klóra sig í kollinum yfir.“

„Flestir hugsa að þetta sé væntanlega einhvers konar ský en þessi ský fara í allt að 250 kílómetra hæð og það er eiginlega út í geimnum. Þarna er rosalega þunnur lofthjúpur en aðrir segja þetta vera einhverskonar norðurljósavirkni en það eru helstu tilgáturnar sem menn eru að skoða að einhverri alvöru. Svo að sjálfsögðu getur eitthvað annað hafa orsakað þetta.“

Sævar segir mögulegt að bólstrarnir hafi orðið til vegna áreksturs loftsteins en hingað til hafi ekkert komið fram sem styðji það. Hann segir marga tuga lofsteina lenda á yfirborði rauðu plánetunnar á ári hverju, en að flestir þeirra séu frekar litlir.

„Til að fá svona stóra bólstra eins og hafa sést þarna þarf stóra árekstra, sem hefðu þá skilið eftir sig stóra gíga. Við höfum ekki ennþá fundið neina slíka gíga, allavega ekki með fullri vissu, sem að gætu þar af leiðandi verið sökudólgarnir. En þegar að lofsteinar rekast á mars er í það rauninni draslið í sólkerfinu sem er að falla til yfirborðsins.“

Sævar segir nokkur geimför vera á braut um mars, en að þau séu flestöll frekar nálægt yfirborði plánetunnar. Þau fari því í gegnum stólpana og nýtist ekki mikið til rannsókna á honum. Hann segir bestu leiðina til að fá niðurstöðu í málið vera að beina sjónaukum frá jörðinni að bólstrunum.

„Það sýnir okkur mikilvægi þess að stjörnuáhugamenn séu að fylgjast með. Því þeir hafa miklu meiri tíma til að sinna þeim athugunum heldur en atvinnustjörnufræðingar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×