Innlent

Kjörsókn meiri í rafrænum íbúakosningum í Reykjavík

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vesturbæjarlaug.
Vesturbæjarlaug. mynd/aðsend
Talsvert meiri kjörsókn er í rafrænum íbúakosningum í Reykjavík í ár miðað við í fyrra. Á milli klukkan þrjú og fjögur í dag höfðu 5.700 manns kosið en þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Kosningunum lýkur á miðnætti í kvöld, þriðjudaginn 24. febrúar og því er enn hægt að greiða atkvæði.

„Kjörsóknin er meiri en í fyrra en þá voru ríflega 5.200 atkvæði talin upp úr hinum rafræna kjörkassa,“ segir Sonja Wiium verkefnisstjóri Betri hverfa 2015.

Þetta er í fjórða sinn sem rafrænar kosningar um Betri hverfi eru haldnar í Reykjavík.

Kosningarnar snúast um smærri verkefni í hverfum borgarinnar en í þeim er kosið á milli innsendra hugmynda borgarbúa.

„Það er auðvitað ánægjuefni að fleiri taki þátt nú en í fyrra,“ segir Sonja. „Talsvert fleiri sendu inn hugmyndir að verkefnum í haust þegar auglýst var eftir hugmyndum frá íbúum. Það má því merkja aukinn áhuga borgarbúa á þessu fyrirkomulagi.“

Kosningunum lýkur formlega á miðnætti í kvöld en kosningavefurinn verður opinn eitthvað fram eftir nóttu til að forðast álag sem getur myndast á vefinn við lokun.

Reykjavíkurborg hvetur alla sem hafa náð 16 ára aldri og eiga lögheimili í Reykjavík til að kjósa hér.

Kjörnefnd á vegum Reykjavíkurborgar hefur talningu strax í fyrramálið. Í henni sitja Helga B. Laxdal, skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjórnar, Sonja Wiium  verkefnisstjóri Betri Reykjavíkur og  Eggert Ólafsson gæðastjóri skrifstofu þjónustu og reksturs.

Úrslit kosninganna Betri hverfi 2015 ættu að verða ljós strax á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×