Innlent

Halda saman upp á afmæli bjórsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Sala bjórs var heimiluð hér á landi þann 1. mars 1989.
Sala bjórs var heimiluð hér á landi þann 1. mars 1989. Vísir/GVA
Ungir jafnaðarmenn og ungir sjálfstæðismenn munu fagna afmæli bjórsins saman næstkomandi föstudag. Er það í fyrsta skipti sem Ungir jafnaðarmenn taka þátt í fagnaðarhöldunum, en taka þeir þó fram að það jafngildi ekki stuðningi við frumvarp Vilhjálms Árnasonar um frjálsa sölu áfengis.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Ungir jafnaðarmenn taka þátt í þessum fögnuði, svo þetta er mjög spennandi,“ segir Eva Indriðadóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna í tilkynningu. „Við í Ungum jafnaðarmönnum fögnum því að sjálfsögðu að bjórbanni hafi verið aflétt á sínum tíma.“

Hún segir bönn sjaldan skila tilætluðum árangri og bendir á bann við fíkniefnum, máli sínu til stuðnings.

„Ungir jafnaðarmenn eru einmitt nýbúnir að álykta um afglæpavæðingu fíkniefna. Refsistefnan hefur beðið skipbrot og það er löngu kominn tími til að endurskoða hana.“

Þó Ungir jafnaðarmenn taki þátt í því að fagna afmæli bjórsins með Ungum sjálfstæðismönnum, segja þau að það jafngildi ekki stuðningi við frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins um frjálsa sölu áfengis. Um það mál eru skiptar skoðanir meðal Ungra jafnaðarmanna.

„Skoðanir okkar fólks eru of skiptar til að við getum skapað sátt um það mál,“ segir Eva. Hún segir þau eiga það sameiginlegt með Ungum Sjálfstæðismönnum að finnast gaman að skemmta sér og Eva vill sjá meiri samvinnu milli ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna.

Fögnuðurinn fer fram næstkomandi föstudagskvöld klukkan 20:00 á Skúli - Craft bar við Aðalstræti 9 í Reykjavík. Sala bjórs var gerð heimild hér á landi þann 1. mars 1989.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×