Viðskipti innlent

Hækkun matarskatts lítil áhrif haft á magn matarinnkaupa

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Nýtt ár hófst með töluvert aukinni veltu í sérvöruverslunum miðað við sama tíma í fyrra en sala í dagvöruverslun í janúar var nánast óbreytt að raunvirði frá janúar í fyrra. Hækkun á lægra þrepi virðisaukaskatts virðist því ekki hafa haft teljandi áhrif á magn matarinnkaupa á heildina litið. Hugsanlega urðu þó einhverjar breytingar á milli einstakra flokka matvæla. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Ekkert lát á vexti í sölu snjallsíma

Meira en þriðjungsaukning varð á sölu raftækja í janúar frá sama mánuði í fyrra, eða um 42 prósent. Aukningin varð mest í veltu minni raftækja, eins og sjónvörpum og hljómflutningstækjum. Þá hafði afnám vörugjalda um áramótin einnig góð áhrif á sölu stærri raftækja eins og þvottavéla, kæliskápa o.fl þar sem söluaukningin nam 37 prósentum miðað við sama mánuð í fyrra. Þá er ekkert lát á vexti í sölu snjallsíma, eða um 35 prósent.

Þá voru janúarútsölur fataverslana mun líflegri en í janúar í fyrra. Veltuaukning fataverslana í mánuðinum nam 10,5 prósent að raunvirði og verð á fötum var 6,1 prósenti lægra en tólf mánuðum fyrr.

Enn langt í land

Húsgagnaverslun jókst einnig jafnt og þétt allt síðasta ár og var veltan næstum 14 prósentum meiri en fyrir ári síðan. Hún á þó enn töluvert langt í land með að ná þeim hæðum sem húsgagnasala var fyrir hrun. Velta húsgagnaverslana var 31 prósent minni en í janúar 2008. Þá voru minni sveiflur í byggingavöruverslunum milli ára, en aukningin nam um tveimur prósentum á milli ára.


Tengdar fréttir

Fólk leiti fyrr í mataraðstoð vegna hækkunar matarskatts

Umsjónarmaður Hjálparstarfs Kirkjunnar segir að þeim sem þiggi mataraðstoð muni koma til með að fjölga, og að þeir sem áður hafa þegið aðstoð þurfi að þiggja hana fyrr, vegna hækkunar á matarskatti. Mótvægisaðgerðir á borð við afnám vörugjalda gagnist þessum hópi lítið sem ekkert.

Neysluviðmiðin skoðuð að nýju reynist þess vera þörf

Fjármálaráðuneytið skýrir ekki hvers vegna kaup á mat á veitingahúsum og í mötuneytum eru ekki flokkuð með matarútgjöldum í forsendum virðisaukaskattsfrumvarpsins. Viðmið verða endurskoðuð reynist þau röng.

Matarskattur mun hækka um fimm prósentustig á næsta ári

Neðra þrep virðisaukaskatts hækkar úr sjö prósentum í tólf prósent á næsta ári, samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi sem dreift var á Alþingi í gær. Efra þrep mun lækka úr 25,5 prósentum í 24 prósent. Áætlað er að barnabætur hækki en skerðingarhlutfall aukist






Fleiri fréttir

Sjá meira


×