Innlent

Kannar þátttöku ríkisins í greiðslu kostnaðar við magabandsaðgerðir

Birgir Olgeirsson skrifar
Kristján Þór segir mikilvægt að mæta offituvandanum á breiðum grunni.
Kristján Þór segir mikilvægt að mæta offituvandanum á breiðum grunni. Vísir/Getty/Pjetur
Velferðarráðuneytið ætlar í samráði við Sjúkratryggingar Íslands að kanna hvort ástæða sé til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við magabandsaðgerðir. Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur, þingmanni Framsóknarflokksins.

Kristján Þór svaraði að það kæmi til skoðunar að taka þátt í greiðslu kostnaðar við magabandsaðgerðir í skilgreindum, alvarlegum tilvikum og meta þá aðkomu með tilliti til árangurs og kostnaðar.

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði heilbrigðisráðherra hvort það standi til að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í greiðslu kostnaðar við magabandsaðgerðir. Vísir/Pjetur
Kristján sagði offitu vera vaxandi vandamál í fjölda landa og er Ísland þar engin undantekning. Hann sagði mikilvægt að mæta þessum vanda á breiðum grunni, þannig að jafnt sé unnið að fyrirbyggjandi lýðheilsuaðgerðum og meðferð þeirra sem stríða við alvarlega offitu. Hefur offitumeðferð staðið fólki til boða á nokkrum heilbrigðisstofnunum og skurðaaðgerðir á Landspítala, þegar þær hafa verið taldar nauðsynlegar að sögn Kristjáns.

Hann sagði magabandsaðgerðir ein tegund skurðaðgerða við alvarlegri offitu og hafa einkaaðilar framkvæmt þær á Íslandi í nokkrum mæli án aðkomu hins opinbera og hafa Sjúkratryggingar Íslands ekki tekið þátt í kostnaði við þær aðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×