Innlent

Gefa út Deiglupésann: „Færist í vöxt að borin sé á borð lítt dulbúin andúð á útlendingum“

Stefán Árni Pálsson skrifar
mynd/Deiglan
Á sautján ára afmæli Deiglunnar kom út rit sem kallast Deiglupési.

Í færslu á Facebook-síðu Deiglunnar kemur fram að viðfangsefni Deiglupésans sé málefni innflytjenda.

„Í almennri umræðu færist í vöxt að borin sé á borð lítt dulbúin andúð á útlendingum og öllu því sem er framandi. Slík pólitísk tækifærismennska höfðar til lægstu hvata og er ákaflega meiðandi fyrir þá sem saklausir verða fyrir henni,“ segir í færslunni.

Það er skoðun þeirra á Deiglunni að tortryggni og fordómar séu óværa fyrir samfélagið allt - bæði fyrir þá sem hér fæddust fyrir heppni og þá sem hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að tilheyra íslensku samfélagi.

„Þess vegna vildi Deiglan leggja nokkur orð í belg um þessi mál, þótt vitaskuld væri best að fólk fengi almennt að vera í friði fyrir málflutningi og rökræðum um tilverugrundvöll sinn í samfélaginu og gæti treyst því að vera dæmt eftir verðleikum sínum frekar en uppruna eða trúarbrögðum.“

Í Deiglupésanum er að finna úrval pistla sem birst hafa á Deiglunni og fjalla um málefni útlendinga. Höfundar efnis eru þrettán talsins og er elsti pistillinn frá árinu 2002 og sá nýjasti frá árinu 2015. Deiglupésinn hefur meðal annars verið afhentur öllum þingmönnum og einnig verður hann til sölu í bókabúðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×