„Þetta er sérlega hættuleg fjara og alltof algengt að menn fari of nálægt. Ölduútsogið er með því meira sem gerist á byggðu bóli í heiminum held ég,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Kötlu DMI. Leiðsögumaður á hennar vegum varð vitni að hátterni fyrrnefnds ferðamanns á þriðjudaginn og tók myndir.

Bandarísk kona á áttræðisaldri beið bana þegar brimalda hrifsaði hana út á dýpið árið 2007. Ári síðar voru þýsk hjón hætt komin á sömu slóðum þegar alda tóku þau með sér. Sama ár reyndi hópur ferðamanna að koma hval til bjargar sem rekið hafði á land. Voru þau búin að vaða sjó allt upp að mitti þegar Ólafur Björnsson, bóndi á Reyni, kom þeim til bjargar.
„Það getur verið stórhættulegt að vaða þarna út í,“ sagði Ólafur við það tilefni.

„Aðstæður þarna eru gríðarlega hættulegar. Fólk hundsar viðvaranir,“ segir Bjarnheiður.
Viðvörunarskilti var komið upp í fjörunni í apríl 2009. Fimm aðilar kostuðu gerð og uppsetningu þess en það voru Ferðamálastofa, Kynnisferðir, Mýrdalshreppur, Hótel Dyrhólaey og Landsbjörg.

Í fyrra var svo að frumkvæði Landsbjargar gengið í að bæta slysavarnir á staðnum enn frekar. Bílastæðið var girt af til að beina fólki niður stíginn framhjá skiltinu. Öryggishluti skiltisins var endurgerður og leiðbeiningar settar fram á myndrænan hátt. Að síðustu var settur upp staur í fjörunni og á hann sett Björgvinsbelti (kastlína og björgunarlykkja). Allt í allt kostuðu framkvæmdirnar um hálfa milljón og að verkefninu komu auk félagsins, björgunarsveitin á staðnum, sveitarfélagið, sjóvá, Vegagerðin, kynnisferðir og lögregan á suðurlandi.
Bjarnheiður segir Reynisfjöru einn vinsælasta viðkomustað ferðamanna á Suðurströndinni. Hundruð þúsunda ferðamanna komi þar við árlega. Sumir með leiðsögumenn en margir á eigin vegum.
„Það er tímaspursmál hvenær verður stórslys þarna miðað við hegðun á borð við þessa,“ segir Bjarnheiður og vísar í ferðamanninn í fjörunni á þriðjudaginn.
Uppfært 20. febrúar klukkan 12
Upplýsingum um frekari uppsetningu viðvaranaskilta við Reynisfjöru hefur verið bætt við fréttina.
Myndbandið að neðan er tekið af Roland A. Mores í Reynisfjöru í janúar 2013.Neðra myndbandið er birt í desember 2014 en kemur ekki fram hvenær það er tekið. Bæði myndböndin sýna glögglega hve mikill öldugangurinn getur verið í fjörunni.