Innlent

Dæmdur fyrir hnefahögg á English Pub

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa slegið mann í andlitið á English Pub en Hæstiréttur taldi ekki sannað að sakborningurinn hefði slegið fórnarlambið oftar en einu sinni.
Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa slegið mann í andlitið á English Pub en Hæstiréttur taldi ekki sannað að sakborningurinn hefði slegið fórnarlambið oftar en einu sinni. Vísir/Getty
Karlmaður á fertugsaldri var í dag dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti Íslands fyrir að greiða manni hnefahögg á English Pub í Austurstræti fyrir rúmum fjórum árum.

Maðurinn hafði áður verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir árásina en þar var hann fundinn sekur um að hafa slegið fórnarlambið tvisvar til þrisvar sinnum í andlitið með þeim afleiðingum að fórnarlambið nefbrotnaði, fékk skurð á nefhrygginn og þurfti að undirgangast aðgerð til að rétta nefið. Maðurinn játaði í héraði að hafa slegið fórnarlambið einu hnefahöggi en neitaði því að þau hefðu verið fleiri. Héraðsdómur Reykjavíkur taldi hins vegar sannað að svo væri.

Þá var maðurinn sakaður um að hafa í kjölfar árásarinnar gripið glas sem var honum nærri, skvett úr því í andlit samferðakonu fórnarlambsins og hent glasinu stefnulaust frá sér. Samkvæmt ákæru hafnaði glasið á höfði drengs sem staðið hafi í um tveggja til þriggja metra fjarlægð frá honum. Maðurinn neitaði sök en Héraðsdómur Reykjavíkur taldi sannað að hann hefði kastað glasinu stefnulaust frá sér í mikilli mannmergð og hefði mátt gera sér grein fyrir afleiðingunum.

Var hann dæmdur til tíu mánaða fangelsisvistar í héraði en Hæstiréttur sneri dómi Héraðsdóms Reykjavíkur á þá leið að ekki væri sannað að maðurinn hefði slegið fórnarlambið oftar en einu sinni og taldi Hæstiréttur ekki næga sönnun fyrir því að maðurinn hefði gerst sekur um að kasta glasinu stefnuslaust frá sér og var hann því sýknaður af þeim ákærulið.

Mildaði Hæstiréttur því dóminn yfir manninum úr tíu mánaða fangelsisvist í þriggja mánaða skilorðsbundna fangelsisvist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×