Innlent

Fatlaðir eiga að neita að fara upp í bíla sem ekki standast öryggiskröfur

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Guðbjörg Kristín Ludvígsdóttir læknir segir skelfilegt ástand í umferðaröryggismálum fatlaðra. Það sé ólíðandi og sýni vanvirðingu að ferðaþjónusta með fatlaða, fullnægi ekki öryggiskröfum, til að mynda um öryggisbelti.

Guðbjörg Kristín flutti erindi á Umferðarþingi um öryggi fatlaðra í umferðinni í dag. Hún sagði að ítrekað hefði verið bent á þetta, regluverkið væri lélegt, eftirlitð nær ekkert og þjálfun bílstjóra ábótavant. Einstaklingarnir sjálfir sem nota ferðaþjónustuna gerðu sér heldur ekki grein fyrir að þeir eigi að vera spenntir í belti, samt bæru þeir ábyrgðina en ekki ferðaþjónustufyrirtækið.

Guðbjörg Kristín segir að það hafi orðið nokkur alvarleg slys, en líka fjöldinn allur af smærri slysum sem séu ekki endilega tilkynnt. Hún segir að það þurfi úrbætur og fatlaðir eigi að krefjast þeirra. Þeir eigi hreinlega að neita að fara upp í bíla sem fullnægi ekki öryggiskröfum.

Bergur Þorri Benjamínsson varaformaður Sjálfsbjargar segir fátt koma á óvart um þessi mál. Hann hafi sjálfur verið fluttur milli staða án þess að vera spenntur fastur. Það sé umhugsunarefni hvort að fatlaðir eigi að neita að nota bíla sem séu vanbúnir. Það sé mikil áskorun. Það verði þá allir ýmist of seinir eða komist ekki heim til sín fyrr en eftir dúk og disk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×