Innlent

Fundur tveggja íbúða húsfélags dæmdur ólöglegur

Samúel Karl Ólason skrifar
Hæstirétturvísaði málinu frá héraðsdómi og felldi niður málskostnað bæði í héraði og Hæstarétti.
Hæstirétturvísaði málinu frá héraðsdómi og felldi niður málskostnað bæði í héraði og Hæstarétti. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur fellt niður dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hjónum var gert að greiða húsfélagi sínu tæplega eina og hálfa milljón króna. Kostnaðurinn var til kominn vegna framkvæmda við fjöleignarhús í Reykjavík, en þau sögðu boðun á fund húsfélagsins hafa verið ólöglega.

Málið snýst um þriggja hæða fjöleignarhús í Reykjavík, sem er í eigu tveggja hjóna. Árið 2007 komu eigendur sér saman um að reisa svalir á báðum hæðum hússins og pall við kjallara þess. Síðar á því ári fluttu önnur hjónin til Kína þar sem þau bjuggu til 2011.

Þann 20. júlí 2010 boðuðu hjónin á Íslandi, sem eiga efri hæð hússins, til húsfundar þar sem taka átti fyrir „Verkáætlun vegna áður samþykktra framkvæmda.“ Hjónin í Kína, sem eiga miðhæð og kjallara, mættu ekki á fundinn.

Húsfélagið sendi bréf á neðri hæðina og á tölvupósta hjónanna um að á húsfundinum hefðu verið teknar bindandi ákvarðanir um framkvæmdirnar. Kæmu ekki fram athugasemdir innan tíu daga yrði ráðist í verkið.

Hjónin í Kína segja þó að þeim hafi aldrei borist fundarboðið og því hefði boðunin ekki verið lögleg og þau ekki bundin af þeim ákvörðunum sem teknar voru á fundinum.

Framkvæmdir hófust í lok janúar eða byrjun febrúar 2011, en hjónin fluttu aftur til Íslands í apríl það ár. Héraðsdómur Reykjavíkur gerði hjónunum í Kína að greiða húsfélaginu 1.348.667 krónur ásamt dráttarvöxtum og 350.000 krónur í málskostnað.

Hæstiréttur segir engin gögn sína fram á að þau hafi í raun fengið boð á húsfundinn. Rétturinn vísaði því málinu frá héraðsdómi og felldi niður málskostnað bæði í héraði og Hæstarétti.

Dóm Hæstaréttar í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×